logo-for-printing

20. janúar 1998

Verðbólguspá Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands gerir verðbólguspá fjórum sinnum á ári, í janúar, apríl, júlí og október. Nú þegar þróun verðlags á árinu 1997 liggur fyrir spáir bankinn að verðbólga á milli áranna 1997 og 1998 verði 2,6%, en 2,3% frá upphafi til loka ársins 1998.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,4% á milli þriðja og fjórða ársfjórðungs 1997, sem samsvarar 1,7% verðbólgu á heilu ári. Spá Seðlabankans frá því í október gerði ráð fyrir heldur meiri hækkun, eða 0,6%. Frávikið er þó vel inna tölfræðilegra skekkjumarka. Verðbólga milli áranna 1996 og 1997 var 1,8% eins og Seðlabankinn spáði í október. Verðbólga yfir árið var 0,1% minni en spáð var í október eða 2,2%.
Á fyrri hluta yfirstandandi árs mun verðbólga aukast nokkuð þegar áhrifa 4% samningsbundinna launahækkana í ársbyrjun tekur að gæta í verðlagi, auk þess sem nú er gert ráð fyrir meira launaskriði en í október, eða 1½% bæði árin 1997 og 1998. Einnig er gert ráð fyrir að hækkun markaðsverðs húsnæðis umfram almenna verðlagsþróun muni stuðla að meiri hækkun vísitölu neysluverðs á þessu ári en ella. Á móti kemur að reiknað er með að innflutningsverð í erlendri mynt muni standa í stað árið 1998. Reiknað er með að innflutningsverð í erlendri mynt hafi einnig haldist því sem næst óbreytt árið 1997, en í októberspá bankans var gert ráð fyrir 1% hækkun. Í forsendum um þróun innflutningsverðs er tekið tillit til verðþróunar hráefna upp á síðkastið og áhrifa frá kreppunni í Asíulöndum á verðlagsþróun í heiminum. Miðað við ofangreindar forsendur spáir Seðlabankinn 0,8% hækkun neysluverðs milli fjórða ársfjórðungs 1997 og fyrsta ársfjórðungs 1998. Verðlagshækkanir verða heldur lægri síðar á árinu. Spáð er mjög svipaðri hækkun frá upphafi til loka árs 1998 og varð á árinu 1997 eða 2,3%, en hækkun á milli ársmeðaltala vísitölunnar verður nokkru meiri eða 2,6% sökum áhrifa frá hækkun vísitölunnar á fyrra ári. Sjá nánar meðfylgjandi töflu.
Seðlabankinn hefur einnig lagt mat á þróun raungengis krónunnar (sjá meðfylgjandi töflu). Raungengi á mælikvarða verðlags hækkaði um 0,7% milli áranna 1996 og 1997 samkvæmt fyrirliggjandi mælingum. Gangi verðlagsspáin eftir og að gefnu óbreyttu gengi frá miðjum janúar 1998 mun raungengi á mælikvarða verðlags hækka um 1% milli áranna 1997 og 1998. Á mælikvarða launakostnaðar hækkaði raungengi um 2,9% milli áranna 1996 og 1997 og spáð er að raungengi á þennan mælikvarða hækki um 3,1% á yfirstandandi ári. Þrátt fyrir nokkra hækkun raungengis, verður raungengi á árinu 1998 enn u.þ.b. 5½% undir meðalstöðu raungengis frá 1980.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson aðalhagfræðingur bankans, í síma 569 9600.

Ársfjórðungsspá

Nr. 2/1998
20. janúar 1998

Til baka