logo-for-printing

31. mars 1998

Ársfundur Seðlabanka Íslands

Ársfundur Seðlabanka Íslands var haldinn í dag. Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar og Þröstur Ólafsson formaður bankaráðs fluttu yfirlitsræður. Finnur Ingólfsson viðskiptaráðherra ávarpaði fundinn.

 Að venju eru þróun efnahagsmála á síðasta ári gerð ítarleg skil í ársskýrslu bankans sem út kom í dag. Þar er einnig að finna upplýsingar um stefnu Seðlabankans og aðgerðir á árinu 1997 auk ýmissa þátta í starfsemi bankans. Ársskýrslunni fylgir að venju viðamikill töfluviðauki.

 Stefnu og aðgerðum bankans er einnig lýst í yfirlitsræðu formanns bankastjórnar. Í ræðunni er ítrekað að stöðugt verðlag væri markmið stefnu Seðlabankans í peningamálum og stöðugleiki í gengi millimarkmið hennar. Þá er fjallað um aðgerðir bankans og þróun vaxta. Einnig er vikið að ríkisfjármálum og fagnað þeim áfanga að afgangur varð á rekstri ríkissjóðs í fyrra. Við ríkjandi aðstæður í efnahagsmálum sé engu að síður full þörf frekara aðhalds í ríkisfjármálum og nauðsynlegt að góður afgangur verði á rekstri ríkissjóðs í ár og á næsta ári til þess að tryggja áframhaldandi lága verðbólgu og stöðugleika. Seðlabankinn muni áfram fylgja aðhaldssamri stefnu en því séu takmörk sett hvað unnt sé að leggja á stefnuna í peningamálum til þess að halda aftur af innlendri eftirspurn.

Þá er í ræðu formanns bankastjórnar fjallað um breytingar sem nú standa yfir á stjórntækjum Seðlabanka Íslands. Við undirbúning þeirra hafi verið höfð hliðsjón af stjórntækjum væntanlegs Seðlabanka Evrópu. Í því samhengi er minnt á að Seðlabankinn hafi allt frá 1987 beitt vaxtastýringu til að ná markmiðum sínum í peningamálum fremur en að stýra peningamagni eða grunnfé Seðlabankans. Aðgangur innlánsstofnana eða lánastofnana að lausafé í Seðlabanka sé því sveigjanlegur að vali þeirra og ráðist m.a. af þeim vöxtum sem Seðlabankinn ákveður. Í upphafi hafi langtímamarkaðurinn verið mikilvægastur fyrir Seðlabankann, en eftir því sem peninga- og gjaldeyrismarkaðir þróuðust frá árunum 1992 og 1993 hafi viðskipti bankans færst yfir á þá markaði, og stýrivextir Seðlabankans séu nú sú ávöxtun sem hann beiti í endurhverfum viðskiptum við lánastofnanir. Þetta sé áþekkt því sem gert sé í langflestum iðnríkjum og byggist á þeirri hugsun að stýrivextir seðlabanka ráði að miklu leyti vaxtastigi á peningamarkaði.

 Í ræðu formanns bankastjórnar er einnig vikið að breytingum á innlendum gjaldeyrismarkaði, breytingum í bankakerfi, afkomu innlánsstofnana, greiðslumiðlun, stöðugleika í fjármálakerfi og Myntbandalagi Evrópu.

 Árið 1997 varð 1.181 milljóna króna hagnaður af rekstri bankans fyrir skatta samanborið við 463 milljónar króna hagnað 1996. Skattur til ríkissjóðs nam 394 milljónum króna 1997 þannig að hagnaður eftir skatta nam 787 m.kr. samanborið við 41 m.kr árið áður. Auk skatts til ríkissjóðs greiddi bankinn 31 milljón króna í önnur opinber gjöld. Framlag hans til Vísindasjóðs nam 145 milljónum króna og þátttaka í rekstri Þjóðhagsstofnunar 52 milljón króna. Rekstrarkostnaður bankans árið 1997 nam 715 milljónum króna samanborið við 676 milljónir króna 1996. Raunhækkun rekstrarkostnaðar bankans var 0,4% í fyrra.

 Niðurstaða efnahagsreiknings bankans hækkaði nokkuð á árinu. Meðal helstu breytinga á eignahlið má nefna að erlendar eignir drógust saman um tæpa 3 milljarða króna, kröfur á innlánsstofnanir jukust um 4,6 milljarða króna og kröfur á ríkissjóð og ríkisstofnanir um 2,3 milljarða króna. Á skuldahlið hækkaði fjárhæð seðla og myntar um 0,4 milljarða króna og innstæður innlánsstofnana stóðu nánast í stað. Eigið fé Seðlabankans í árslok nam 16,7 milljörðum króna og hafði hækkað um 1,2 milljarða króna frá fyrra ári. Hlutfall eigin fjár af heildareignum var 25,9% í lok síðasta árs samanborið við 25,7% í árslok 1996.

 Í IX. kafla ársskýrslu bankans er gerð nánari grein fyrir rekstri og afkomu hans á árinu.

Í árslok 1997 voru starfsgildi í Seðlabankanum 129 sem var 2 færra en í lok ársins 1996. Í árslok 1990 voru starfsgildi í bankanum 147. Starfsmenn í lok árs 1997 voru 141, 61 kona og 80 karlar.

 Nánari upplýsingar veitir formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands Birgir Ísleifur Gunnarsson í síma 569-9600.

Nr. 11/1998
31. mars 1998

Til baka