logo-for-printing

26. maí 1998

Standard & Poor's telur horfur um lánshæfiseinkunn Íslands jákvæðar

Bandaríska matsfyrirtækið Standard & Poor's staðfesti í dag óbreytt lánshæfismat á ríkissjóði Íslands en tilkynnti um leið jákvæðar horfur um lánshæfiseinkunn Íslands á erlendum skuldbindingum til langs tíma.

 Lánshæfiseinkunn Standard & Poor's er A+ fyrir erlendar langtímaskuldbindingar og A-1+ fyrir skammtímaskuldbindingar sem er hæsta skammtímaeinkunn sem fyrirtækið gefur. Lánshæfiseinkunn fyrir innlendar skuldbindingar til langs tíma er AA+.

Í frétt Standard & Poor's segir að lánshæfismatið og horfur á hækkun þess byggist m.a. á skynsamlegri efnahagsstefnu sem leitt hefur til stöðugleika í efnahagslífinu, styrkri stjórn á nýtingu fiskistofna, aukinni fjölbreytni í hagkerfinu, mikilvægum kerfisumbótum og langvarandi þjóðfélagslegum og stjórnmálalegum stöðugleika. Lánshæfismatinu eru hins vegar settar skorður af háum erlendum skuldum samanborið við lönd með svipað lánshæfismat, viðkvæmni efnahagslífsins fyrir ytri áföllum og þörf fyrir frekari kerfisumbætur til að draga úr umfangi opinbera geirans, sérstaklega með einkavæðingu fjármálastofnana og stórra fyrirtækja í opinberri eigu.

Jákvæðar horfur um breytingu á lánshæfiseinkunn byggjast á því mati Standard & Poor's að áframhaldandi skynsamleg hagstjórn og kerfisumbætur muni styrkja undirstöður hagkerfisins og fjárhagslega stöðu þess og gera því þar með betur kleift að mæta ytri áföllum. Hækkun lánshæfiseinkunnar muni ekki síst ráðast af getu stjórnvalda til þess að halda jafnvægi í opinberum fjármálum yfir hagsveifluna og að draga úr umfangi hins opinbera í þjóðarbúskapnum, ekki síst í fjármálageiranum. Þá myndi frekari lækkun erlendra skulda hafa jákvæð áhrif á lánshæfismatið. Hins vegar myndi skortur á aðhaldi í ríkisfjármálum og/eða umtalsverðar tafir á nauðsynlegum viðbrögðum við framvindu efnahagsmála koma í veg fyrir hækkun lánshæfismatsins.

Sendinefndir Standard & Poor's koma til Íslands til viðræðna við fulltrúa stjórnvalda með reglulegu millibili, síðast í mars 1998. Seðlabanki Íslands annast reglubundin samskipti við Standard & Poor's og önnur alþjóðleg fyrirtæki af sama toga.

 Nánari upplýsingar veita bankastjórar Seðlabanka Íslands og Jón Þ. Sigurgeirsson, deildarstjóri á alþjóðasviði bankans í síma 569 9600.

Nr. 25/1998
26. maí 1998

Til baka