Nýjar reglur um fyrirgreiðslu við viðskiptavaka-afnám fjárvörslusamninga
Undanfarin tvö ár hafa verið í gildi svonefndir fjárvörslusamningar á milli Seðlabanka Íslands og nokkurra aðila að Verðbréfaþingi Íslands. Tilgangur þeirra var að stuðla að traustari verðmyndun ríkisskuldabréfa á eftirmarkaði. Gildandi samningar renna út í lok þessa mánaðar. Seðlabankinn telur ekki lengur þörf fyrir samninga af þessu tagi og mun því ekki sækjast eftir framlengingu þeirra. Ástæðan er sú að nokkrir aðilar að Verðbréfaþingi hafa að eigin frumkvæði lýst því yfir að þeir muni gegna hlutverki viðskiptavaka fyrir markflokka ríkisskuldabréfa með eigi lakari hætti en fjárvörslusamningarnir fólu í sér.
Samhliða þessu hefur Seðlabankinn endurskoðað gildandi reglur um fyrirgreiðslu sína við viðskiptavaka ríkisskuldabréfa og eru meginbreytingarnar fjórþættar. Í fyrsta lagi er hlutverk viðskiptavaka skilgreint betur en áður og samræmt því sem gilti í fjárvörslusamningum bankans. Í öðru lagi er aðgangur að fyrirgreiðslu bankans bundinn því að viðkomandi fyrirtæki sé viðskiptavaki í öllum markflokkum ríkisskuldabréfa. Í þriðja lagi er aðgangur að fyrirgreiðslu háður því að eiginfjárstaða viðkomandi sé yfir tilteknu lágmarki. Í fjórða lagi er viðskiptavökum sem uppfylla ofangreind skilyrði veittur aðgangur að vikulegum uppboðum Seðlabankans á endurhverfum samningum með sama hætti og bindiskyldum lánastofnunum.
Nánari upplýsingar veita bankastjórar Seðlabankans og Yngvi Örn Kristinsson, framkvæmdastjóri peningamálasviðs bankans í síma 569-9600.
Nr. 26/1998
29. maí 1998