Ragnar Hafliðason settur forstöðumaður bankaeftirlits Seðlabanka Íslands
Viðskiptaráðherra hefur sett Ragnar Hafliðason forstöðumann bankaeftirlits Seðlabanka Íslands frá 4. júlí 1998 til loka ársins. Þórður Ólafsson lét af störfum sem forstöðumaður í dag 3. júlí og fer til starfa hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Ragnar Hafliðason hefur starfað við bankaeftirlit Seðlabanka Íslands frá 1976 ef frá eru talin árin 1981 til 1985 þegar hann vann að endurskoðunarstörfum. Undanfarin ár hefur Ragnar verið aðstoðarforstöðumaður bankaeftirlits Seðlabankans.
Sem kunnugt er samþykkti Alþingi í byrjun júní sl. lög um Fjármálaeftirlit sem fela í sér sameiningu bankaeftirlits Seðlabanka Íslands og Vátryggingaeftirlitsins. Skv. lögunum tekur hin nýja stofnun til starfa í byrjun næsta árs og um leið leggst niður starfsemi bankaeftirlits Seðlabanka Íslands og Vátryggingaeftirlitsins.
Nánari upplýsingar veita bankastjórar Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.
Athygli er vakin á að fréttir Seðlabanka Íslands eru birtar á heimasíðu bankans (http://www.sedlabanki.is) um leið og þær eru gefnar út.
Nr. 36/1998
3. júlí 1998