logo-for-printing

30. nóvember 1998

Greiðslujöfnuður við útlönd janúar-september 1998

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands var 27,8 milljarða króna halli á viðskiptajöfnuði á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 5,3 milljarða króna halla á sama tímabili í fyrra. Mikill vöxtur innflutnings skýrir aukinn halla á viðskiptum við útlönd. Hann var mestur um 17 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi en þá fór saman hratt vaxandi innflutningur og samdráttur í vöruútflutningi. Útflutningur hefur aukist á ný og var vöxtur hans litlu minni en innflutnings á þriðja ársfjórðungi, 22% á móti 24%. Viðskiptahalli var þá 3,9 milljarðar króna samanborið við 2,2 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.

Fjármagnsjöfnuður hefur einkennst af miklu gjaldeyrisinnstreymi vegna erlendra lántaka lánastofnana og beinni fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi. Á fyrstu níu mánuðum ársins námu nettó fjármagnshreyfingar til landsins 28 milljörðum króna þrátt fyrir umtalsverðar endurgreiðslur erlendra lána ríkissjóðs og meiri kaup Íslendinga á erlendum verðbréfum en í fyrra. Gjaldeyrisforði Seðlabankans minnkaði á þriðja fjórðungi ársins en styrktist um 1,2 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum þess.

 Taflan sýnir samandregið yfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd. Ítarlegar upplýsingar um greiðslujöfnuðinn verða birtar í desemberhefti Hagtalna mánaðarins

Greiðslujöfnuður við útlönd

Nr. 69/1998
30. nóvember 1998

Til baka