logo-for-printing

06. ágúst 1999

Helstu liðir í efnahagsreikningi Seðlabanka Íslands

Meðfylgjandi eru upplýsingar úr efnahagsreikningi Seðlabanka Íslands í lok júlí 1999 og til samanburðar í lok desember 1998 ásamt breytingum í mánuðinum.
Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst um 2,3 milljarða króna í júlí og nam í lok mánaðarins 33,4 milljörðum króna (jafnvirði 459 milljóna bandaríkjadala á gengi í mánaðarlok). Að hluta til stafar aukning forðans af lántöku bankans erlendis, en að henni frátalinni nam aukningin 0,9 milljörðum króna í mánuðinum og 6 milljörðum króna frá ársbyrjun, svo sem sjá má á liðnum "gjaldeyrisstaða nettó" í meðfylgjandi yfirliti.
Erlend skammtímalán bankans jukust í mánuðinum um 1,4 milljarð og námu þau 1,5 milljarði í mánaðarlok, en hafa lækkað um 2,5 milljarða frá áramótum. Löng erlend lán stóðu aftur á móti í stað og nema nú 3,4 milljörðum króna, en hafa lækkað um 1,7 milljarð frá áramótum.
Í júlímánuði námu viðskipti á millibankamarkaði með gjaldeyri alls 43,8 milljörðum króna en Seðlabankinn átti engin viðskipti á þeim markaði í mánuðinum. Gengi íslensku krónunnar, mælt með vísitölu gengisskráningar, lækkaði um 0,1% í mánuðinum.
Markaðsskráð verðbréf í eigu bankans námu 11,6 milljörðum króna í júlílok á markaðsverði og hækkuðu um 3,0 milljarða í mánuðinum. Breytingin fólst öll í kaupum á ríkisvíxlum, en staða þeirra í lok mánaðarins nam 5,3 milljörðum króna.
Kröfur Seðlabankans á innlánsstofnanir lækkuðu um 0,5 milljarða í júlí og námu þær 15,0 milljörðum í lok mánaðarins. Kröfur á aðrar fjármálastofnanir hækkuðu aftur á móti um 0,7 milljarða og  voru 5,3 milljarðar króna í lok hans.
Nettókröfur bankans á ríkissjóð og ríkisstofnanir hækkuðu um 3,4 milljarða króna í mánuðinum og voru neikvæðar um 2 milljarða króna í lok júlí.
Grunnfé bankans jókst um 4,8 milljarða króna í mánuðinum og nam það 26,8 milljörðum króna í lok hans.

Nánari upplýsingar veita bankastjórar Seðlabanka Íslands og Erla Árnadóttir aðalbókari í síma 569-9600.

Helstu liðir í efnahagsreikningi Seðlabankans

Nr. 49/1999
6. ágúst 1999

Til baka