Helstu liðir í efnahagsreikningi Seðlabanka Íslands
Meðfylgjandi eru upplýsingar úr efnahagsreikningi Seðlabanka Íslands í lok
ágúst 1999 og til samanburðar í lok desember 1998 ásamt breytingum í ágúst og
frá ársbyrjun.
Gjaldeyrisforði Seðlabankans dróst saman um 1,8
milljarða króna í ágúst og nam í lok mánaðarins 31,6 milljörðum króna (jafnvirði
434 milljóna bandaríkjadala á gengi í mánaðarlok). Frá ársbyrjun hafði forðinn
styrkst um 1,8 milljarða króna. Seðlabankinn átti engin viðskipti á innlendum
millibankamarkaði með gjaldeyri í ágúst. Rýrnun gjaldeyrisforðans í mánuðinum
skýrist af endurgreiðslu erlends langtímaláns bankans. Erlend skammtímalán
bankans jukust, en nokkru minna en sem nam endurgreiðslu langtímalánsins. Í lok
ágúst námu erlend langtímalán bankans 1,3 milljörðum króna og höfðu lækkað um
3,8 milljarða króna frá ársbyrjun. Erlend skammtímalán bankans námu 2,5
milljörðum króna og höfðu lækkað um 1,4 milljarða króna frá ársbyrjun. Gengi
íslensku krónunnar, mælt með vísitölu gengisskráningar, hækkaði um 0,6% í
mánuðinum.
Heildareign Seðlabankans í markaðsskráðum verðbréfum nam 10,2
milljörðum króna í ágústlok miðað við markaðsverð og lækkaði um 1,4 milljarða
króna í mánuðinum. Breytingin fólst öll í sölu og innlausn ríkisvíxla, en í lok
mánaðarins nam ríkisvíxlaeign bankans 3,9 milljörðum króna.
Kröfur
Seðlabankans á innlánsstofnanir hækkuðu um 2,6 milljarða í ágúst og námu þær
17,6 milljörðum í lok mánaðarins. Kröfur á aðrar fjármálastofnanir hækkuðu
einnig um 2,6 milljarða króna í mánuðinum, einkum vegna endurhverfra viðskipta,
og voru 7,9 milljarðar króna í lok hans.
Nettókröfur bankans á ríkissjóð og
ríkisstofnanir lækkuðu um 4,9 milljarða króna í ágúst og voru þær neikvæðar um
6,9 milljarða króna í lok mánaðarins.
Grunnfé bankans dróst saman um 3
milljarða króna í mánuðinum og nam það 23,8 milljörðum króna í lok
hans.
Nánari upplýsingar veita bankastjórar Seðlabanka Íslands og Erla
Árnadóttir aðalbókari í síma 569-9600.
Helstu liðir í efnahagsreikningi Seðlabankans í milljónum króna
Nr. 54/1999
6. september 1999