Seðlabanki Íslands birtir nýjar hagtölur á heimasíðu sinni
Seðlabanki Íslands hefur í dag útgáfu ítarlegs talnaefnis á heimasíðu sinni,
www.sedlabanki.is. Þar munu vikulega
birtast nýjar tölfræðilegar upplýsingar um íslenskt efnahagslíf sem unnar eru í
Seðlabankanum, og varða þær einkum þá þætti sem heyra beint undir verksvið
Seðlabanka Íslands. Talnaefni þetta var að hluta til birt í Hagtölum mánaðarins
sem Seðlabankinn gaf út frá 1974 þar til í september sl. Stefnt er að
reglubundinni birtingu hinna vikulegu hagtalna, Hagtalna Seðlabankans, kl. 16 á
mánudögum. Hver vikuleg birting er stöðluð, þ.e. hún hefur að geyma sömu töflur
hverju sinni, en með nýjum tölum þar sem við á.
Jafnframt verður sú
nýbreytni tekin upp að birta daglega á heimasíðunni nýjar upplýsingar um gengi
og vexti á innlendum mörkuðum. Þær upplýsingar verða birtar um hádegi hvern
virkan dag.
Þeir sem þess óska geta gerst áskrifendur að fjölritaðri
mánaðarlegri útgáfu af talnaefninu, Hagtölum Seðlabankans, gegn greiðslu
áskriftargjalds. Fyrir þá sem hafa greiðan aðgang að veraldarvefnum er hins
vegar handhægara og ódýrara að nálgast töflusafnið á heimasíðu
bankans.
Þessar breytingar eru liður í þeirri viðleitni Seðlabanka Íslands að
koma upplýsingum á framfæri við almenning með skilvirku móti og jafnframt að
verða við þeim kröfum sem alþjóðlegir staðlar og upplýsingatækni kalla á hverju
sinni.
Áskriftarsími Seðlabanka Íslands er 569-9785.
Nánari upplýsingar
veita bankastjórar Seðlabanka Íslands, Sveinn E. Sigurðsson framkvæmdastjóri
tölfræðisviðs bankans varðandi útgáfu töflusafnsins (Hagtalna Seðlabankans) og
Stefán Jóhann Stefánsson ritstjóri varðandi heimasíðuna, í síma 569-9600.
Nr.67 /1999
25. október 1999