Helstu liðir í efnahagsreikningi Seðlabanka Íslands
Meðfylgjandi eru upplýsingar úr efnahagsreikningi Seðlabanka Íslands í lok
nóvember 1999 og til samanburðar í lok desember 1998 ásamt breytingum í nóvember
og frá ársbyrjun.
Gjaldeyrisforði Seðlabankans dróst saman um 2,7
milljarða króna í nóvember og nam í lok mánaðarins 31,4 milljörðum króna
(jafnvirði 433 milljóna bandaríkjadala á gengi í mánaðarlok). Frá ársbyrjun
hafði forðinn styrkst um 1,6 milljarða króna. Tímabundnar erlendar
lánahreyfingar ríkissjóðs leiddu til stækkunar forðans á haustmánuðum (sbr.
fréttir bankans nr. 64/1999 og 71/1999) en þær gengu að fullu til baka í
nóvember. Gengi íslensku krónunnar, mælt með vísitölu gengisskráningar var því
sem næst óbreytt í mánuðinum.
Erlend skammtímalán Seðlabankans hækkuðu um
2,5 milljarða króna í nóvember. Í lok mánaðarins námu erlend langtímalán bankans
1,2 milljörðum króna og höfðu lækkað um 3,9 milljarða króna frá ársbyrjun.
Heildareign Seðlabankans í markaðsskráðum verðbréfum nam 7,4 milljörðum
króna í nóvemberlok miðað við markaðsverð og lækkaði um 0,9 milljarða króna í
mánuðinum.
Kröfur Seðlabankans á innlánsstofnanir jukust um 5,7 milljarða
króna í nóvember og námu 23,7 milljörðum króna í lok mánaðarins. Kröfur á aðrar
fjármálastofnanir hækkuðu um 2,8 milljarða króna í mánuðinum og voru 8,5
milljarðar króna í lok hans.
Nettókröfur bankans á ríkissjóð og
ríkisstofnanir hækkuðu um 1,3 milljarða króna í nóvember og voru þær neikvæðar
um 8,4 milljarða króna í lok mánaðarins.
Grunnfé bankans jókst um 4,7
milljarða króna í mánuðinum og nam 27,8 milljörðum króna í lok
hans.
Nánari upplýsingar veita bankastjórar Seðlabanka Íslands og Erla
Árnadóttir aðalbókari í síma 569-9600.
Helstu liðir í efnahagsreikningi Seðlabankans
Nr. 77/1999
6. desember 1999