logo-for-printing

07. febrúar 2000

Helstu liðir í efnahagsreikningi Seðlabanka Íslands

Meðfylgjandi eru upplýsingar úr efnahagsreikningi Seðlabanka Íslands í lok janúar 2000 og til samanburðar í lok desember 1999 ásamt breytingum í janúar í ár. Þar sem áramótauppgjöri og endurskoðun ársreiknings 1999 er ekki að fullu lokið eru tölur fyrir desemberlok 1999 bráðabirgðatölur. Í samræmi við nýjar reglur um ársreikning og reikningsskil Seðlabanka Íslands er gullforði bankans metinn á markaðsverði frá árslokum 1999. Verðendurmatið hafði í för með sér hækkun á fjárhæð gjaldeyrisforðans í árslok 1999 um 1,1 milljarð króna frá því sem birt var í frétt bankans 10. janúar sl.
Gjaldeyrisforði Seðlabankans dróst saman um 3,6 milljarða króna í janúar og nam 32,2 milljörðum króna í lok mánaðarins (jafnvirði 439 milljóna bandaríkjadala á gengi í mánaðarlok). Minnkun forðans í janúar skýrist m.a. af því að endurgreiddar voru innstæður á innlendum gjaldeyrisreikningum sem lagðar voru inn í desember. Erlend skammtímalán bankans námu 4,8 milljörðum í mánaðarlok og höfðu hækkað um 1,1 milljarð í mánuðinum. Gengi íslensku krónunnar, mælt með vísitölu gengisskráningar, var nær óbreytt í mánuðinum.
Heildareign Seðlabankans í markaðsskráðum verðbréfum nam 8,1 milljarði króna í janúarlok miðað við markaðsverð og hækkaði um 1,7 milljarða króna í mánuðinum. Breytinguna má rekja til kaupa bankans á ríkisvíxlum, en um áramótin átti Seðlabankinn enga ríkisvíxla.
Kröfur Seðlabankans á innlánsstofnanir jukust um 2,9 milljarða króna í janúar og námu 32,4 milljörðum króna í lok mánaðarins. Kröfur á aðrar fjármálastofnanir lækkuðu aftur á móti um 3 milljarða króna í mánuðinum og voru 6,7 milljarðar í lok hans.
Nettókröfur bankans á ríkissjóð og ríkisstofnanir lækkuðu um 9,4 milljarða króna í janúar og voru neikvæðar um 21 milljarð króna í lok mánaðarins. 
Grunnfé bankans dróst saman um 15,1 milljarð króna í mánuðinum og nam 21,1 milljörðum króna í lok hans.
 Nánari upplýsingar veita bankastjórar Seðlabanka Íslands og Erla Árnadóttir aðalbókari í síma 569-9600.

Helstu liðir í efnahagsreikningi Seðlabankans

Nr. 6/2000
7. febrúar 2000

Til baka