Greiðslujöfnuður við útlönd 1999
Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands var viðskiptahallinn 42,8 milljarðar króna á árinu 1999 samanborið við 40,1 milljarða króna halla árið áður. Aukinn halli í viðskiptum við útlönd stafar af lakari jöfnuði þjónustuviðskipta og auknum vaxtagreiðslum af erlendum skuldum, en hallinn á vöruviðskiptum varð 2,6 milljörðum króna minni en árið áður. Eftir sem áður var hann stærsti þáttur viðskiptahallans og nam 22,4 milljörðum króna á árinu 1999. Í heild var fjármagnsjöfnuður við útlönd jákvæður um 58,1 milljarð króna. Fjármagnsinnstreymi stafar að mestu leyti af erlendum lántökum lánastofnana og atvinnufyrirtækja en umtalsvert fjárútstreymi var vegna fjárfestinga í erlendum verðbréfum og aukinna innlána í útlöndum. Bein fjárfesting Íslendinga erlendis var um 5 milljarðar króna, sem var álíka fjárhæð og árið áður, en bein fjárfesting erlendra aðila hér á landi varð heldur minni á árinu 1999 eða um 6,5 milljarðar króna. Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst um 5,3 milljarða króna og nam um 35,8 milljörðum króna í árslok.
Eftirfarandi tafla sýnir samandregið yfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd. Ítarlegar upplýsingar um greiðslujöfnuðinn og erlenda stöðu þjóðarbúsins er að finna í meðfylgjandi yfirlitum og einnig í Hagtölum Seðlabankans á heimasíðu hans.
Greiðslujöfnuður við útlönd í milljörðum króna
Athygli er vakin á því að uppgjörsaðferð þáttatekna hefur verið breytt til samræmis við alþjóðlega staðla sem gilda um uppgjör þjóðhagsreikninga. Í þáttatekjum (vöxtum, arði og launum) eru ekki lengur taldar breytingar á markaðsvirði erlendra verðbréfa í eigu Íslendinga. Nú eru einungis taldar til þáttatekna arð- og vaxtagreiðslur af verðbréfunum. Afleiðing þessa er sú að viðskiptahallinn mælist hafa verið meiri á árinu 1998 og á fyrstu níu mánuðum ársins 1999 en áður hafði verið greint frá. Í spá Þjóðhagsstofnunar í desember sl. var gert ráð fyrir að viðskiptahallinn 1999 yrði 38 milljarðar króna. Að teknu tilliti til breyttra uppgjörsaðferða varð útkoman áþekk spánni, vöruskiptahallinn varð heldur minni en þjónustuhallinn meiri en búist var við.
Hækkun á markaðsvirði erlendra hlutabréfa var mikil á síðustu tveimur árum; nær 20% 1998 og 30% 1999. Talið er að í árslok 1999 hafi Íslendingar átt jafnvirði 124 milljarða króna í erlendum verðbréfum á markaðsvirði. Þar af voru um 87% í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða.
Hrein erlend staða þjóðarbúsins var neikvæð um 314 milljarða króna í árslok 1999 samanborið við 285 milljarða króna 1998. Hún hafði því versnað um 29 milljarða króna sem er mun minna en viðskiptahallinn gaf tilefni til. Skýringar á þessum mun eru nokkrar en þyngst vegur hækkun á markaðsvirði erlendra verðbréfa í eigu Íslendinga auk gengishækkunar íslensku krónunnar. Einnig kann stór skekkjuliður greiðslujafnaðar sem var neikvæður um 15,3 milljarða króna, að benda til þess að fjárfesting innlendra aðila í útlöndum hafi verið meiri en tekist hefur að mæla með reglulegri gagnaöflun Seðlabankans.
Nánari upplýsingar veitir Jakob Gunnarsson deildarstjóri á tölfræðisviði Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.
Nr. 10/2000
10. mars 2000