Moody's staðfestir óbreytt lánshæfismat íslenska ríkisins
Bandaríska matsfyrirtækið Moody's í New York sendi frá sér frétt 7. febrúar sl. þar sem tilkynnt er að fyrirtækið hafi staðfest lánshæfismat sitt fyrir Ísland. Í fréttinni segir Moody's að horfur um lánshæfismatið séu taldar stöðugar í nýrri skýrslu fyrirtækisins um Ísland. Þessi niðurstaða endurspeglar verulega bætta skuldastöðu opinbera geirans og staðfestu stjórnvalda í hagstjórn sem lagt hefur grunn að öflugum hagvexti, stöðugleika og miklum lífskjarabata á liðnum árum. Umfangsmiklar skipulagsbreytingar á síðasta áratug hafa falið í sér styrkingu á fjármálum hins opinbera, aukið frjálsræði á fjármála og vörumarkaði, aukna fjölbreytni í framleiðslu og útflutningi, bætta stjórn fiskveiða og frjálslyndari viðhorf til erlendrar fjárfestingar.
Moody's varar á hinn bóginn við því að miklum hagvexti hafi fylgt alvarlegt ójafnvægi í þjóðarbúskapnum sem gæti grafið undan efnahagslegum stöðugleika á komandi tíð. Hjöðnunin sem nú er hafin veldur ráðamönnum vanda í ljósi mikils aðhalds peningamála, tiltölulega aðhaldssamrar stefnu í ríkisfjármálum og mikils viðskiptahalla. Miklar erlendar lántökur banka og fyrirtækja verða þyngri í skauti vegna um það bil 10% lækkunar á gengi krónunnar á síðasta ári. Þetta vekur ugg um afkomu þessara fyrirtækja ef gengið lækkar frekar á komandi misserum.
Þrátt fyrir þessi varnaðarorð leggur Moody's áherslu á að geta íslenskra stjórnvalda til að greiða erlendar skuldir samræmist lánshæfiseinkunninni Aa3 um þessar mundir. Aðgangur að erlendu lánsfé frá erlendum bönkum og norrænum seðlabönkum er mjög góður og skilvísi er ekki dregin í efa. Af þessum ástæðum eru taldar horfur á óbreyttri lánshæfiseinkunn þrátt fyrir áhyggjur af erlendri stöðu og hugsanlegum erfiðleikum í greiðslujöfnuði eða gjaldeyrismálum.
Nánari upplýsingar veitir Ólafur Ísleifsson framkvæmdastjóri alþjóðasviðs bankans í síma 569-9600.
Nr. 7/2001
8. febrúar 2001