logo-for-printing

13. desember 2001

Yfirlýsing Seðlabanka Íslands vegna endurskoðunar kjarasamninga á árinu 2002

Seðlabanki Íslands fagnar samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun kjarasamninga á árinu 2002. Með því hefur dregið úr óvissu í launa og verðlagsmálum. Bankinn telur jafnframt að forsendur fyrir hækkun á gengi krónunnar hafi styrkst og líkur aukist á að verðbólgumarkmið bankans náist.

Vaxtabreytingar Seðlabankans hafa áhrif á verðbólgu með töf. Vaxtastefnan getur því úr þessu ekki haft afgerandi áhrif á hvort vísitala neysluverðs verður undir verðlagsviðmiðun aðila vinnumarkaðarins í maí n.k. Viðmiðunin samrýmist hins vegar nokkurn veginn verðbólguspá Seðlabankans frá því í byrjun nóvember síðast liðinn. Hærra gengi og áhrif lægra grænmetisverðs á verðlag auka líkur á að verðlagsviðmiðunin náist.

Til lengri tíma ráðast verðlagshorfur af aðhaldi peningastefnunnar í samspili við eftirspurn í þjóðarbúskapnum. Mikilvægt er að fjárlög voru samþykkt með sama afgangi og fjárlagafrumvarp gerði ráð fyrir þrátt fyrir verri horfur í efnahagsmálum. Afar brýnt er að framkvæmd fjárlaga gangi eftir. Seðlabankinn telur mikilvægt að lánamál ríkissjóðs á næsta ári stuðli við ríkjandi aðstæður að hærra gengi krónunnar og verðbólgumarkmiði bankans. Til að svo geti orðið þarf að gæta jafnt að langtímaáhrifum lántöku ríkissjóðs á innlenda eftirspurn og verðbólgu sem og skammtímaáhrifum hennar á gengi krónunnar.

Nýgert samkomulag aðila vinnumarkaðarins stuðlar að því að sú hjöðnun verðbólgu sem spáð hefur verið á næsta ári gangi eftir. Í nóvember sl. spáði Seðlabankinn því að verðbólga yrði rúm 4% frá upphafi til loka næsta árs. Styrkist gengið á næstunni, eins og allar forsendur eru til, gæti verðbólga orðið minni. Gangi þessi þróun eftir mun hún að öðru óbreyttu skapa forsendur fyrir frekari lækkun vaxta.

Nánari upplýsingar veitir Birgir Ísl. Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

   
 

Nr. 44/2001
13. desember 2001

 


Til baka