logo-for-printing

06. febrúar 2002

Helstu liðir í efnahagsreikningi Seðlabanka Íslands

Meðfylgjandi eru upplýsingar úr efnahagsreikningi Seðlabanka Íslands í lok janúar 2002 og til samanburðar í lok desember 2001 ásamt breytingum í janúar 2002.

Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst um 0,8 milljarða króna í janúar og nam 37,4 milljörðum króna í lok mánaðarins (jafnvirði 363 milljóna Bandaríkjadala á gengi í mánaðarlok). Eftirstöðvar gjaldmiðlaskiptasamnings sem Seðlabankinn gerði í desember 2001 námu 2,9 milljörðum króna í lok janúar. Eftirstöðvar samningsins renna út í áföngum í febrúar, mars og apríl. Erlend skammtímalán bankans hækkuðu um 3,7 milljarða króna í mánuðinum og námu 18,7 milljörðum króna í lok hans. Skammtímaskuldirnar hækkuðu m.a. vegna efnda á hluta fyrrgreinds gjaldmiðlaskiptasamnings. Gengi krónunnar hækkaði um 1,7% í janúar.

Markaðsskráð verðbréf í eigu bankans námu 5,1 milljarði króna í janúarlok miðað við markaðsverð. Markaðsskráð verðbréf ríkissjóðs í eigu bankans námu 2,2 milljörðum króna.

Kröfur Seðlabankans á innlánsstofnanir hækkuðu um 8,9 milljarða króna í janúar og námu 62,9 milljörðum króna í lok mánaðarins. Kröfur á aðrar fjármálastofnanir hækkuðu um 0,2 milljarða króna í mánuðinum og voru 23 milljarðar króna í lok mánaðarins.

Nettókröfur bankans á ríkissjóð og ríkisstofnanir lækkuðu um 3,1 milljarð króna í janúar og voru neikvæðar um 34,2 milljarða króna í lok mánaðarins.

Grunnfé bankans jókst í janúarmánuði um 1,5 milljarða króna og nam 29,3 milljörðum króna í lok mánaðarins.

Nánari upplýsingar veita bankastjórar Seðlabanka Íslands og Erla Árnadóttir aðalbókari í síma 569-9600.

Tafla yfir helstu liði efnahagsreiknings Seðlabanka Íslands

 

Skýringar:
Gjaldeyrisforði sýnir brúttóeign Seðlabankans í erlendum gjaldeyri. Markaðsskráð verðbréf ríkissjóðs sýna eign bankans í spariskírteinum ríkissjóðs, ríkisbréfum og ríkisvíxlum. Markaðsskráð verðbréf annarra eru húsbréf og húsnæðisbréf. Kröfur á innlánsstofnanir eru brúttókröfur bankans á innláns-stofnanir. Kröfur á aðrar fjármálastofnanir eru brúttókröfur bankans á þessar stofnanir. Erlendar skuldir til skamms tíma sýna skammtímalán sem Seðlabankinn tekur við og við, m.a. í því skyni að styrkja gjaldeyrisforðann. Seðlar og mynt sýna heildarfjárhæð seðla og myntar í umferð utan Seðlabanka. Almennar innstæður innlánsstofnana og annarra fjármálastofnana eru innstæður þeirra á viðskiptareikningum í Seðlabankanum og bundnar innstæður innlánsstofnana og annarra fjármálastofnana eru innstæður sem þeim er skylt að eiga í Seðlabankanum í samræmi við bindiskyldu sem bankinn ákveður. Neðanmáls eru sýndir fjórir liðir til skýringar, í fyrsta lagi nettógjaldeyrisstaða Seðlabankans sem sýnir erlendar eignir til skamms tíma að frádregnum erlendum skuldum til skamms tíma, í öðru lagi nettókröfur Seðlabankans á ríkissjóð og ríkisstofnanir, þ.e. skuldir þessara aðila við Seðlabankann að frádregnum innstæðum þeirra í bankanum, í þriðja lagi innlendar brúttókröfur á aðra en ríkið, og í fjórða lagi grunnfé bankans en til þess teljast seðlar og mynt í umferð og innstæður innlánsstofnana í Seðlabankanum.

 

 

Nr. 3/2002
6. febrúar 2002


Til baka