logo-for-printing

30. apríl 2002

Seðlabanki Íslands lækkar vexti

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka ávöxtun í endurhverfum viðskiptum bankans við lánastofnanir um 0,3 prósentur frá næsta uppboði á endurhverfum verðbréfasamningum sem haldið verður þriðjudaginn 7. maí n.k. Aðrir vextir Seðlabankans verða einnig lækkaðir um 0,3 prósentur frá 1. maí n.k.

Þriðjudaginn 7. maí n.k. gefur Seðlabanki Íslands út ársfjórðungsrit sitt Peningamál. Í því birtist ný verðbólguspá til rúmlega tveggja ára og ítarleg greining á stöðu og horfum í efnahags- og peningamálum. Verðbólguspáin og greining bankans liggja nú fyrir í megindráttum. Horfur eru nú á að markmiðinu um 2½% verðbólgu verði náð fyrir lok árs 2003, eins og að var stefnt í sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans frá 27. mars 2001, og að verðbólga verði undir markmiðinu á fyrsta fjórðungi 2004 að óbreyttri peningastefnu. Þá benda flestir nýjustu hagvísar til að samdráttur eftirspurnar á vöru- og vinnumarkaði ágerist um þessar mundir. Um nánari rökstuðning að baki vaxtalækkuninni vísast til væntanlegra Peningamála.

Nr. 14/2002
30. apríl 2002

Til baka