Helstu liðir í efnahagsreikningi Seðlabanka Íslands
Meðfylgjandi eru upplýsingar úr efnahagsreikningi Seðlabanka Íslands í
lok desember 2003 og til samanburðar í lok desember 2002 ásamt breytingum í
desember 2003 og frá ársbyrjun 2003.
Þar sem áramótauppgjöri og
endurskoðun er ekki að fullu lokið eru tölur fyrir desemberlok 2003
bráðabirgðatölur og kunna þær að taka breytingum í endanlegu
uppgjöri.
Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst í mánuðinum um 0,3 milljarða
króna og nam 58,1 milljarði króna í desemberlok (jafnvirði 819 milljóna
Bandaríkjadala á gengi í mánaðarlok). Erlend skammtímalán bankans vegna
gjaldeyrisforða voru engin í lok ársins en námu rúmlega 16 milljörðum króna í
byrjun þess.
Seðlabankinn keypti gjaldeyri á innlendum millibankamarkaði
fyrir 3,7 milljarða króna í desember í samræmi við áætlun hans um aðgerðir til
að styrkja gjaldeyrisstöðu sína sem m.a. var greint frá í maíhefti Peningamála
2003. Gengi íslensku krónunnar styrktist um 1,4% í desember og um 1,2% á árinu
öllu.
Markaðsskráð verðbréf í eigu bankans námu 3,9 milljörðum króna í
desemberlok miðað við markaðsverð. Þar af námu markaðsskráð verðbréf útgefin af
ríkissjóði 0,7 milljörðum króna.
Kröfur Seðlabankans á innlánsstofnanir
lækkuðu um 17,6 milljarða króna í desember og námu 24 milljörðum króna í lok
mánaðarins. Kröfur á aðrar fjármálastofnanir hækkuðu lítillega og námu 4
milljörðum króna í mánaðarlok.
Innstæður innlánsstofnana lækkuðu um 16,7
milljarða króna í mánuðinum en í desember var bindiskylda lækkuð, almennum
innstæðum breytt í innstæður með bindiákvæðum og sérstökum bindireikningum
lokað.
Nettókröfur Seðlabankans á ríkissjóð og ríkisstofnanir hækkuðu um
3,1 milljarð króna í desember og námu nettóinnstæður ríkissjóðs 22,1 milljarði
króna í lok mánaðarins.
Grunnfé bankans lækkaði í desember um 11,6
milljarða króna og nam 21,7 milljörðum króna í mánaðarlok.
Nánari
upplýsingar veita bankastjórar Seðlabanka Íslands og Erla Árnadóttir aðalbókari
í síma 569-9600.
Fréttin í heild með töflu (pdf-skjal 84kb)
Nr. 2/2004
9. janúar 2004