Seðlabanki Íslands hækkar vexti
Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti bankans (þ.e. vexti í endurhverfum viðskiptum hans við lánastofnanir) um 0,2 prósentur í 5,5% þriðjudaginn 11. maí n.k.
Ákvörðunin byggist á síðustu þjóðhags- og verðbólguspá bankans sem birt var í Peningamálum 17. mars síðastliðinn og framvindu efnahagsmála síðan þá. Miðað við forsendur verðbólguspárinnar var útlit fyrir að verðbólga færi að óbreyttu yfir verðbólgumarkmið bankans á þriðja fjórðungi næsta árs samhliða því að stutt væri í að slaki í þjóðarbúskapnum snerist í spennu. Verðbólguspáin kallaði því að óbreyttu á hærri stýrivexti á komandi mánuðum.
Framvindan síðustu vikur hefur staðfest mikilvægar forsendur spárinnar. Samningar hafa verið gerðir um stækkun Norðuráls og nýjustu vísbendingar sýna áframhaldandi vöxt innlendrar eftirspurnar auk þess sem slaki á vinnumarkaði hefur minnkað. Þá virðist líklegt að verðbólga fari fyrr yfir markmið bankans en reiknað var með í spánni í mars þar sem langtímavextir hafa lækkað, tvær síðustu hækkanir vísitölu neysluverðs voru umfram væntingar á markaði og gengi krónunnar er nú 3,7% lægra en miðað var við í síðustu verðbólguspá. Hækkun vísitölu neysluverðs gæti reyndar farið eitthvað yfir verðbólgumarkmiðið á næstu mánuðum vegna hækkunar á eldsneytisverði en eðlilegt er að horft sé framhjá áhrifum slíkra þátta við framkvæmd stefnunnar í peningamálum.
Í ljósi þess sem að framan greinir telur Seðlabankinn tilefni til að hefja nú vaxtahækkunarferli sem hann hefur boðað undanfarna mánuði. Tímasetningar og umfang næstu skrefa velta eins og ávallt á framvindunni. Bankinn birtir þjóðhags- og verðbólguspá ásamt mati á stöðu og horfum í efnahagsmálum í Peningamálum sem gefin verða út 1. júní næstkomandi.
Nánari upplýsingar veitir Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569 9600.
Nr. 9/2004
6. maí 2004