Greiðslujöfnuður við útlönd og erlend staða þjóðarbúsins á fyrsta ársfjórðungi 2004
Á fyrsta fjórðungi ársins var halli á viðskiptum við útlönd 13 milljarðar króna samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands. Á sama tíma í fyrra var viðskiptahallinn 2,7 milljarðar króna. Vöruviðskipti voru hagstæð um 0,3 milljarða króna en 5 milljarða króna halli var á þjónustuviðskiptum við útlönd. Halli á þáttatekjum við útlönd var 8,1 milljarður króna á fyrsta ársfjórðungi 2004 samanborið við 6,1 milljarðs króna halla á sama tíma í fyrra. Á föstu gengi jókst útflutningur vöru og þjónustu um 4,1% en innflutningur jókst um 17,1% frá sama tímabili árið áður.
Hreint fjárinnstreymi mældist 23,6 milljarðar króna á fyrsta fjórðungi ársins. Erlendrar lántökur nettó voru 83,2 milljarðar króna sem skýrist af skuldabréfaútgáfu í Evrópu en önnur erlend lán lækkuðu á sama tíma. Bein fjárfesting erlendra aðila á Íslandi var 6,4 milljarðar króna. Fjárútstreymi vegna erlendra verðbréfakaupa nam 24,8 milljörðum króna og 9,7 milljörðum króna vegna beinna fjárfestinga erlendis. Aðrar fjárfestingar voru 24,1 milljarður króna, einkum útlán bankanna til erlendra aðila sem hafa aukist mikið á síðustu árum og nema nú um 165 milljörðum króna. Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands jókst um 7,5 milljarða króna á fyrsta fjórðungi ársins og nam hann 66,7 milljörðum króna í lok mars 2004.
Greiðslujöfnuður við útlönd í milljörðum króna
Ársfjórðungar | I | II | III | IV | I |
2003 | 2003 | 2002 | 2003 | 2004 | |
Viðskiptajöfnuður | -2,7 | -16,9 | -12,7 | -11,1 | -13,0 |
Útflutningur vöru og þjónustu | -71,1 | 68,1 | 79,9 | 68,9 | 72,8 |
Innflutningur vöru og þjónustu | -67,3 | -78,3 | -87,4 | -78,5 | -77,5 |
Þáttatekjur og framlög, nettó | -6,5 | -6,7 | -5,1 | -1,5 | -8,3 |
Fjármagnsjöfnuður | 8,0 | 14,9 | 8,9 | 2,4 | 23,6 |
Fjármagnshreyfingar án forða | -8,2 | 15,0 | -26,4 | -114,6 | -58,6 |
Erlendar eignir, nettó | 24,3 | 64,7 | 45,1 | 130,7 | 89,6 |
Erlendar skuldir, nettó | -0,2 | -0,0 | -9,6 | -13,6 | -7,5 |
Skekkjur og vantalið | -5,3 | 2,0 | 3,8 | 8,8 | -10,5 |
Erlendar skuldir þjóðarinnar voru 591 milljarður króna umfram eignir í lok mars sl. og hafði skuldastaðan hækkað frá ársbyrjun um ríflega 33 milljarða króna. Ítarlegri upplýsingar um greiðslujöfnuðinn við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins er að finna í meðfylgjandi töflum ásamt endurskoðuðum tölum fyrra árs. Endurmetinn viðskiptahalli 2003 var 43,4 milljarðar króna og fjárinnstreymið mældist 34,1 milljarðar króna á árinu 2003.
Mánudaginn 7. júní 2004 mun birtast töfluyfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd og erlenda stöðu í hagtölum Seðlabankans á heimasíðu bankans. Einnig birtist yfirlit um erlendar skuldir þjóðarinnar í samræmi við birtingastaðal Alþjóðagjaldeyrissjóðsins Þar eru erlendar skuldir flokkaðar eftir helstu lántakendum, tímalengd og lánsformum.
Nánari upplýsingar veitir Jakob Gunnarsson, deildarstjóri á tölfræðisviði Seðlabanka Íslands, í síma 569-9600.
Fréttin í heild með töflum (pdf-skjal 30kb)
Nr. 15/2004
3. júní 2004