Skýrsla um áhrif breytinga á fjármögnun íbúðarhúsnæðis
Í lok síðastliðins árs fór félagsmálaráðherra þess á leit við Seðlabanka Íslands að hann gerði úttekt á hugsanlegum efnahagslegum áhrifum hækkunar íbúðalána í samræmi við tilteknar forsendur. Þær voru nánar tiltekið:
1. Ný lög um húsnæðislán taki gildi 1. janúar 2005. Hámark húsnæðislána verði þá hækkað strax í 90% af verði ,,hóflegrar' íbúðar.
2. Þá hækki hámarkslán fyrir bæði notað og nýtt húsnæði í 11,9 m.kr. 1. janúar 2005 og síðan mánaðarlega um 120 þúsund krónur fram til 1. maí 2007 og yrði þá orðið 15,4 m.kr.
3. Húsnæðislán Íbúðalánasjóðs verði einungis veitt gegn fyrsta veðrétti.
4. Hámarkslánstími verði styttur í 30 ár.
Beiðni ráðherra varð tilefni umfangsmikillar rannsóknar Seðlabankans á ýmsum hliðum málsins. Skýrsla um niðurstöður bankans var send félagsmálaráðherra 28. júní 2004. Frá því að skýrslan var unnin hafa miklar breytingar orðið á íslenska íbúðalánamarkaðinum, einkum vegna aukinnar samkeppni frá bönkunum. Eftir síðasta útspil bankanna takmarkar aðeins greiðslugeta einstaklinga og verðmæti íbúðar fjárhæð fasteignaveðláns. Af því leiðir að rýmkun á útlánareglum Íbúðalánasjóðs hefur í sjálfu sér ekki lengur þau áhrif sem gengið var út frá í skýrslu bankans til félagsmálaráðherra. Reyndar má ætla að innkoma bankanna hafi töluvert meiri áhrif á íbúðalánamarkaðinn en sú rýmkun á útlánareglum Íbúðalánasjóðs sem fjallað er um í skýrslunni, ekki aðeins vegna þess að ekkert hámark er á fyrirgreiðslu bankanna, heldur sökum þess að íbúðarkaup eru ekki skilyrði fyrir lánveitingu.
Þrátt fyrir gjörbreytt umhverfi standa niðurstöður rannsókna sem liggja til grundvallar áliti bankans enn fyrir sínu. Þess vegna telur bankinn rétt að skýrslan komi fyrir almenningssjónir, þótt niðurstöðurnar eigi ekki lengur við að öllu leyti. Eftir stendur að þótt þær breytingar sem orðið hafa á íbúðalánakerfinu séu að mörgu leyti framför fela þær í sér örvun eftirspurnar og einkaneyslu á sama tíma og mikil þensla er á íbúðamarkaði. Mikil veðsetning, allt að 90% af kaupverði eins og áformað er hjá Íbúðalánasjóði og nú allt að 100% af kaupverði hjá bönkunum, mun líklega leiða til þess að eigið fé sem bundið er í íbúðum fólks muni í mörgum tilvikum verða neikvætt einhvern tímann á næstu árum, enda hefur raunvirði íbúða sjaldan eða aldrei verið hærra en nú. Slíkar aðstæður geta aukið hættu á fjárhagslegum vanda skuldara og þar með fjármálakerfisins í heild, eins og reynsla Norðurlandanna í upphafi síðasta áratugar er glöggt dæmi um.
Skýrslan hefur nú verið birt á heimsíðu Seðlabankans.
Nánari upplýsingar veita bankastjórar Seðlabanka Íslands, Arnór Sighvatsson aðalhagfræðingur bankans og Þórarinn G. Pétursson staðgengill aðalhagfræðings.
Skýrsla til félagsmálaráðherra
32/2004
15. nóvember 2004