Efnahagsreikningur Seðlabanka Íslands í lok desember 2004
Þar sem áramótauppgjöri og endurskoðun er ekki að fullu lokið eru tölur fyrir desemberlok 2004 bráðabirgðatölur og kunna þær að taka breytingum í endanlegu uppgjöri.
Seðlabankinn keypti gjaldeyri á innlendum millibankamarkaði fyrir 1,4 milljarða króna í desember sl. í samræmi við áður kynnta áætlun hans um að styrkja gjaldeyrisstöðu sína. Gjaldeyrisforði bankans dróst saman um 1,5 milljarða króna í mánuðinum og nam 65,6 milljörðum króna í lok mánaðarins sem jafngildir 1.074 milljónum Bandaríkjadala miðað við gengi í mánaðarlok. Forðinn jókst um 39 milljónir Bandaríkjadala en framangreind lækkun hans í krónum skýrist af gengistapi þar eð gengi íslensku krónunnar styrktist um 4,4% í desember.
Kröfur Seðlabankans á innlánsstofnanir lækkuðu um 1,1 milljarð króna í desember og námu 31,8 milljörðum króna í lok mánaðarins. Kröfur á aðrar fjármálastofnanir lækkuðu um 0,7 milljarða króna og námu 9 milljörðum króna í mánaðarlok.
Markaðsskráð verðbréf í eigu bankans námu 3,3 milljörðum króna í desemberlok miðað við markaðsverð.
Skuldir Seðlabankans við innlánsstofnanir jukust um 2,4 milljarða króna í mánuðinum og námu 26,9 milljörðum króna í desemberlok, en skuldir við aðrar fjármálastofnanir lækkuðu um 10,9 milljarða króna í mánuðinum.
Nettóinnstæður ríkissjóðs og ríkisstofnana jukust um 8 milljarða króna og námu 17,8 milljörðum króna í lok desember.
Grunnfé bankans hækkaði í desember um 2,9 milljarða króna og nam 38,6 milljörðum króna í mánaðarlok.
Nánari upplýsingar veita bankastjórar Seðlabanka Íslands og Erla Árnadóttir aðalbókari í síma 569-9600.
Fréttin í heild með töflum (pdf-skjal 43kb)
Nr. 2/2005
10. janúar 2005