logo-for-printing

10. febrúar 2005

Matsfyrirtækið Standard & Poor’s hækkar lánshæfismat íslenska ríkisins

Matsfyrirtækið Standard & Poor’s greindi frá því í dag að fyrirtækið hefði hækkað lánshæfiseinkunn ríkissjóðs á langtímaskuldbindingum í erlendri mynt í AA- úr A+ og fyrirtækið staðfesti einnig lánshæfiseinkunnina AA+ fyrir langtímaskuldbindingar í íslenskum krónum og A-1+ fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt og íslenskum krónum. Horfur fyrir matið eru stöðugar. 

Í frétt Standard & Poor’s segir eftirfarandi:
Hækkunin endurspeglar verulegar og viðvarandi framfarir í aðlögunarhæfni og uppbyggingu íslenska bankakerfisins, ásamt jákvæðum skilyrðum fyrir opinber fjármál sem ætti að leiða til ört lækkandi skulda hins opinbera. 

Íslenska fjármálakerfið hefur styrkst eftir ójafnvægið sem skapaðist í útlánaþenslunni sem átti sér stað fyrir árið 2001. Bætt regluverk og fjármálaeftirlit ásamt auknum umsvifum á Norðurlöndum og víðar hefur eflt aðlögunarhæfni bankakerfisins og gert það síður viðkvæmt fyrir efnahagsframvindu á Íslandi auk þess að greiða fyrir aðgangi að fjármagni. Nýleg innkoma viðskiptabankanna á fasteignalánamarkaðinn styrkir hið einkarekna fjármálakerfi frekar heima fyrir og eykur arðsemi.

Opinber fjármál standa áfram traustum fótum. Vegna mikils hagvaxtar, einkavæðingartekna og tekjuafgangs fjárlaga til ársloka 2006 munu heildarskuldir hins opinbera halda áfram að lækka ört og verða undir 25% af VLF árið 2007 samanborið við 46% árið 2002.

Íslenska stjórnkerfið er stöðugt og sveigjanlegt og nýtur almenns stuðnings. Sveigjanlegt hagkerfi skapar landsframleiðslu sem mælist ein sú hæsta á mann í heiminum. Spáð er að hagvöxtur verði að meðaltali 5,1% á árunum 2005-2006, knúinn áfram af umfangsmiklum fjárfestingum í stóriðju og mikilli innlendri eftirspurn.
 
Hreinar skuldir þjóðarbúsins við útlönd eru mjög miklar á öllum sviðum efnahagslífsins og halda áfram að aukast og munu svara til 350% af heildarútflutningstekjum árið 2006. Vegna hárra raunvaxta á Íslandi hefur erlent fé verið flutt inn í íslenska hagkerfið, einkum með milligöngu innlendra banka en á vegum þeirra eru um 2/3 hlutar hreinna erlendra skulda þjóðarbúsins. Síðustu tvö árin hafa erlendir fjárfestar hins vegar fjárfest mikið í íslenskum skuldabréfum, sérstaklega íbúðabréfum.

Mikill viðskiptahalli þrengir frekar að erlendri lausafjárstöðu. Stóriðjuframkvæmdirnar munu setja frekari þrýsting á greiðslujöfnuðinn og mun viðskiptahallinn nálgast 11,7% af VLF árið 2006. Hins vegar munu jákvæð áhrif þeirra á útflutning minnka viðskiptahallann í 3% af VLF árið 2008. Engu að síður verður erlend lausafjárstaða Íslands áfram með því lakasta sem gerist meðal þjóða sem hafa opinbert lánshæfismat.

Horfur
Um þessar mundir hafa stórfjárfestingar í álbræðslu, sem standa munu fram á árið 2007, mikil áhrif á efnahagsframvinduna. Peningastefnan hefur þegar borið uppi meginþungann í mótvægisaðgerðum gegn þensluáhrifum framkvæmdanna. Þetta eykur líkurnar á því að efnahagslegt ójafnvægi skapist þegar stóriðjuframkvæmdunum lýkur. Til að viðhalda lánshæfiseinkunninni skiptir þar af leiðandi sköpum að staðið verði við langtímastefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum. Frekari ófyrirsjáanlegri aðlögunarþörf hagkerfisins yrði að mæta með ríkisfjármálaaðgerðum, ekki með aðgerðum í peningamálum.

Ef hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins aukast verulega eða ójafnvægi grefur alvarlega um sig á ný í þjóðarbúskapnum í kjölfar stórframkvæmdanna gæti lánshæfið versnað.

Nánari upplýsingar veita Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar og Jón Þ. Sigurgeirsson framkvæmdastjóri alþjóðasviðs í síma 569-9600.

 

4/2005
10. febrúar 2005

Til baka