Standard & Poor's staðfestir óbreytt lánshæfismat íslenska ríkisins
Í dag staðfesti matsfyrirtækið Standard & Poor´s lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs á langtímaskuldbindingum í erlendri mynt AA- og AA+ fyrir langtímaskuldbindingar í íslenskum krónum. Einnig var staðfest einkunnin A-1+ fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt og íslenskum krónum. Horfur um lánshæfismatið eru stöðugar.
Í frétt fyrirtækisins segir eftirfarandi í lauslegri þýðingu:
„Lánshæfiseinkunn Íslands byggist á stöðugu stjórnkerfi, mjög auðugu og sveigjanlegu hagkerfi ásamt góðri stöðu opinberra fjármála. Það sem heldur aftur af frekari hækkun lánshæfismatsins er bæði mjög mikil erlend fjármögnunarþörf og mjög miklar erlendar skuldir hagkerfisins” sagði Kai Stukenbrock sérfræðingur hjá Standard og Poor´s.
Opinber fjármál standa áfram traustum fótum. Vegna mikils hagvaxtar, tekna af einkavæðingu og tekjuafgangs ríkissjóðs til og með 2006 munu heildarskuldir hins opinbera halda áfram að lækka ört og verða um 21% af VLF árið 2009 samanborið við 50% árið 2001.
Erlend fjármögnunarþörf hagkerfisins er ein sú mesta sem um getur meðal ríkja sem hafa lánshæfiseinkunn en hana má rekja til mjög mikilla erlendra skulda á öllum sviðum efnahagslífisins og mikils viðskiptahalla. Hreinar erlendar skuldir halda áfram að vaxa þrátt fyrir verulega lækkun á skuldum ríkissjóðs. Þrátt fyrir það ætti lok stórframkvæmda, minnkandi innlend eftirspurn og vaxandi útflutningur að draga töluvert úr viðskiptahallanum (sem spáð er að verði 13% af landsframleiðslu 2006) frá og með 2007. Nýleg veiking krónunnar er enn vel innan þeirra marka sem Standard & Poor’s hefur reiknað með.
Vaxandi ójafnvægis gætir í þjóðarbúskapnum vegna hraðvaxandi innlendrar eftirspurnar sem knúin er áfram af væntingum neytenda og fyrirtækja, vegna mikilla fjárfestinga í orkufrekum iðnaði og útlánaþenslu. Þrátt fyrir meiri tekjuafgang hjá hinu opinbera árin 2005 og 2006, hefur peningamálastefnan borið meginþungann í mótvægisaðgerðum gegn áhrifum þenslunnar. Þetta eykur líkurnar á ójafnri aðlögun þegar eftirspurnarþenslunni lýkur. Kai segir enn fremur að“ til að viðhalda lánshæfiseinkunninni skiptir sköpum að staðið verði við langtímastefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum og helst að auka aðhaldið enn frekar.”
„Ef hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins aukast verulega frá því sem orðið er eða ójafnvægi grefur frekar um sig í þjóðarbúskapnum í kjölfar stórframkvæmdanna gæti lánshæfið versnað,” sagði Kai Stukenbrock að lokum.
Nánari upplýsingar veita Davíð Oddsson formaður bankastjórnar og Sturla Pálsson framkvæmdastjóri alþjóðasviðs í síma 569-9600.
Nr. 9/2006
16. mars 2006