logo-for-printing

16. ágúst 2006

Seðlabanki Íslands hækkar vexti

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentur í 13,5%.

Í inngangi Peningamála, sem gefin voru út 6. júlí sl., sagði að verðbólga langt yfir markmiði, mun lakari verðbólguhorfur en í síðustu spá Seðlabankans og vaxandi verðbólguvæntingar bentu ótvírætt til að hækka þyrfti stýrivexti umtalsvert enn, þótt mikil óvissa ríkti um hve hátt þeir þyrftu að fara til að kveða niður verðbólguna. Þá sagði ennfremur að á meðan ekki lægju fyrir öruggar vísbendingar um að verðbólgan hjaðnaði hraðar en þá voru horfur á myndi Seðlabankinn halda áfram að hækka vexti. Samhliða útgáfu Peningamála var tilkynnt um hækkun stýrivaxta um 0,75 prósentur. Bankastjórn ákvað einnig að hún myndi meta þörf fyrir frekara aðhald þegar um miðjan ágúst, þ.e. að bæta einum vaxtaákvörðunardegi við þá sem þegar höfðu verið tilkynntir. Af því leiðir að bankastjórn tekur þrisvar ákvörðun um stýrivexti á tímabilinu frá júlí til september en ekki tvisvar eins og áður var ráðgert.

Þótt verðbólga á þriðja fjórðungi ársins verði eitthvað minni en Seðlabankinn spáði í Peningamálum í byrjun júlí breytir framvinda hagvísa frá þeim tíma ekki greiningunni á þróun og horfum sem þar var kynnt. Bankastjórn telur því óhjákvæmilegt að hækka vexti frekar.

Um framhaldið gildir það sem sagt var í Peningamálum í júlí og vitnað er til hér að framan. Seðlabankinn mun fylgjast grannt með vísbendingum um breytingar á horfum í efnahagsmálum.

Næsta ákvörðun bankastjórnar Seðlabankans um vexti verður birt fimmtudaginn 14. september n.k. eins og áður hefur verið tilkynnt. Sú næsta þar á eftir verður birt fimmtudaginn 2. nóvember n.k. samhliða útgáfu næsta heftis Peningamála.

Nr. 31/2006
16. ágúst 2006

Til baka