Seðlabanki Íslands hækkar vexti
Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentur í 14%.
Framvinda efnahagsmála frá júlíbyrjun hefur í meginatriðum verið í samræmi við þjóðhags- og verðbólguspá Seðlabankans sem þá var birt að öðru leyti en því að verðbólga verður nokkru minni á þriðja fjórðungi ársins og verðbólgukúfurinn á seinni helmingi ársins trúlega lægri en spáð var. Á móti vegur mun meiri viðskiptahalli á fyrri hluta ársins sem bendir til hraðari vaxtar eftirspurnar en spáð var og að verðbólguhorfur verði lakari þegar frá líður. Verðbólga er enn mikil sem og verðbólguvæntingar.
Endurskoðaðar þjóðhagstölur sýna mun meiri hagvöxt á síðasta ári en fólst í áður birtum tölum sem stuðst var við í spám bankans í júlí. Vísbendingar um hagvöxt og eftirspurn á öðrum og þriðja fjórðungi þessa árs benda til þess að framleiðsluspenna sé meiri en reiknað var með í júlí. Mikil spenna er á vinnumarkaði og launakostnaður fyrirtækja hefur hækkað hratt. Minnkandi vöxtur útlána og tekna ríkissjóðs af óbeinum sköttum og fleiri vísbendingar sýna þó að farið er að hægja töluvert á vexti innlendrar eftirspurnar.
Í byrjun nóvember nk. gefur Seðlabankinn út næsta hefti Peningamála. Í því verður ný verðbólgu- og þjóðhagsspá auk ítarlegrar greiningar á framvindu efnahagsmála. Þá verður þörfin fyrir peningalegt aðhald metin á ný. Framhjá því verður ekki horft að viðskiptahallinn felur í sér að mikillar aðlögunar verður þörf í þjóðarbúskapnum á næstu árum. Við þær aðstæður verður peningalegt aðhald að vera nægilegt svo verðbólga nái ekki að festast í sessi. Aðhald í opinberum fjármálum, jafnt ríkis og sveitarfélaga, auðveldar Seðlabankanum að ná því markmiði.
Næsti vaxtaákvörðunardagur bankastjórnar Seðlabanka Íslands verður 2. nóvember nk., samhliða útgáfu Peningamála.
Nr. 37/2006
14. september 2006