Hagvísar Seðlabanka Íslands í desember 2006
Hagvísar Seðlabanka Íslands fyrir desembermánuð eru komnir út. Þar er meðal annars fjallað um þjóðhagsreikninga fyrir þriðja ársfjórðung 2006 og vísbendingar um veltu á síðasta fjórðungi ársins. Hagvísar koma næst út 25. janúar 2007.
Í inngangi Hagvísa segir m.a.: „Í desember hækkaði vísitala neysluverðs um 0,04% frá fyrri mánuði og hefur hækkað um 7% sl. tólf mánuði. Mest áhrif á vísitöluna hafði 2% verðhækkun nýrra bíla (vísitöluáhrif 0,13%) og 1,5% verðlækkun bensíns og olíu (vísitöluáhrif -0,1%). Dregið hefur úr hækkun húsnæðisverðs að undanförnu og hefur reiknuð húsaleiga hækkað um rúmlega 1% á síðustu þremur mánuðum, sem má eingöngu rekja til áhrifa hækkunar raunvaxta. Vísitala neysluverðs án húsnæðis var óbreytt frá því í nóvember og hefur hækkað um 5,6% sl. tólf mánuði. Kjarnavísitölurnar hækkuðu nokkru meira en vísitala neysluverðs milli mánaða, um 0,24% og 0,26%, og hafa hækkað um 7% og 7,6% sl. tólf
mánuði.“