logo-for-printing

15. mars 2007

Fitch lækkar lánshæfismat ríkissjóðs Íslands í A+/AA+. Horfur eru stöðugar

„Matsfyrirtækið Fitch Ratings greindi frá því í dag að það hefði lækkað lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands í erlendri og innlendri mynt í A+ og AA+ úr AA- og AAA. Horfur eru stöðugar fyrir báðar einkunnir. Um leið var lánshæfiseinkunnin fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt lækkuð í F1 úr F1+ og landseinkunnin (e. country ceiling) lækkuð í AA- úr AA.

„Lækkunin tekur mið af nýjustu gögnum um greiðslujöfnuð og hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins sem benda til þess að staða Íslands gagnvart útlöndum hafi versnað verulega, en það eykur á áhyggjur um sjálfbærni erlendu skuldastöðunnar,” segir Paul Rawkins, sérfræðingur Fitch Ratings í London í málefnum Íslands. Stóraukin hrein fjármagnsgjöld til útlanda – aðallega í formi erlendra vaxtagreiðslna – hafa átt sinn þátt í meiri viðskiptahalla en áður hefur mælst, en hann nam 27% af landsframleiðslu 2006 samanborið við 16,3% árið 2005. Á sama tíma jukust hreinar erlendar skuldir í rúm 200% af landsframleiðslu og 429% af útflutningstekjum, en til samanburðar hafði matsfyrirtækið spáð að þessi hlutföll yrðu 161% og 323%.

„Svo há hlutföll endurspegla mjög skuldsett hagkerfi sem er illa búið undir aukna áhættufælni á alþjóðamörkuðum og/eða hærra alþjóðlegt vaxtastig”, segir Rawkins. „Ennfremur er erfiðara að gera ráð fyrir mildri aðlögun hagkerfisins í ljósi vaxandi viðskiptahalla á árinu 2006”. Efnahagsstefnan gefur aðhaldi í ríkisfjármálum lítinn gaum á kosningaári þar sem afgangur hins opinbera mun minnka í 1,1% af landsframleiðslu á árinu 2007 úr 5,3% á árinu 2006, þannig að aðlögunarbyrðin mun hvíla að mestu á peningastefnunni í formi æ hærri vaxta. Í ljósi þessa telur matsfyrirtækið Fitch aukna hættu á „harðri lendingu” sem fæli í sér mikinn og langvarandi samdrátt í eftirspurn í einkageiranum.

Fitch segir að þar sem vaxtagreiðslur svari nú til helmings viðskiptahallans verði aðlögunin sem þarf til að ná jafnvægi á milli erlendra afborgana og útflutningstekna meira en nokkurn tíma áður í sögu landsins. Hér er um að ræða viðsnúning á grunnjöfnuði (þ.e. án vaxta) sem næmi 15% af landsframleiðslu. Fáum löndum hefur tekist að leiðrétta slíkt ójafnvægi án þess að ganga í gegnum tímabil lítils eða neikvæðs hagvaxtar. Matsfyrirtækið reiknar með að viðskiptahallinn verði áfram yfir tíu af hundraði um nokkurt skeið. Hrein neikvæð staða Íslands við útlönd jókst í 119% af VLF árið 2006 úr 84% árið 2005 og er hlutfallið nú með því hæsta meðal ríkja sem hafa lánshæfiseinkunn í flokki “AA”/ “AAA”. Vaxandi greiðslubyrði af erlendum skuldbindingum miðað við tekjur af erlendum eignum eykur einnig áhyggjur af hversu lengi frekari erlend skuldasöfnun, einkum hjá íslenskum bönkum, getur haldið áfram að fjármagna erlendar fjárfestingar.

Þrátt fyrir horfur um slakari ríkisfjármálastefnu segir Fitch að Ísland haldi yfirburðastöðu sinni í ríkisfjármálum og þetta réttlæti að halda þriggja þrepa mismun á einkunn á milli skuldbindinga í innlendri og erlendri mynt. Samt sem áður varar matsfyrirtækið við því að lönd með að því er virðist sterka stöðu opinbera fjármála geti ekki leyft sér að líta framhjá ójafnvægi sem stafar frá einkageiranum og frá ört vaxandi hreinni erlendri skuldastöðu, einkum þegar bankar eru aðalskuldarar. Fitch lítur það jákvæðum augum að íslenskir bankar hafa brugðist við áhyggjum af hve mikill hluti erlendra skulda gjaldfellur árið 2007. Þó er bent á að hreinar erlendar skuldbindingar þeirra haldist háar eða í 168% af landsframleiðslu á sama tíma og innlent efnahagsumhverfi gæti versnað ef lendingin verður hörð.

Fitch viðurkennir að Ísland býr yfir styrk á ákveðnum sviðum sem bersýnilega skilur það frá öðrum ríkjum með lánshæfiseinkunina A, svo sem þjóðartekjur á mann sem nema 52.000 Bandaríkjadölum, hágæða stjórnkerfi og gegnsætt stofnanaumhverfi. Þessir þættir munu áfram styðja við lánshæfismat ríkisins. Sem stendur er Fitch engu að síður þeirrar skoðunar að þessir eiginleikar vegi ekki upp efnahagslegt ójafnvægi og áhrif þess á lánstraust. Lykillinn að framtíðarbreytingum á lánshæfismatinu felst í því hvernig dregur úr ójafnvæginu.”

Áskrifendur að Fitch geta fengið eintak af uppfærðu lánshæfismati á heimasíðu þess og matsfyrirtækið mun halda símafund föstudaginn 16. mars klukkan 15:00 GMT til að fara yfir álit sitt. Upplýsingar um símafundinn verða birtar sérstaklega.

Nánari upplýsingar veitir formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands í síma 569-9600


Nánari upplýsingar: Paul Rawkins, London, Tel/email: +44 (0)20 7417 4239/ paul.rawkins@fitchratings.com; Brian Coulton +44 (0)20 7862 4097/ brian.coulton@fitchratings.com

Nr. 5/2007

15. mars 2007

 

Til baka