Stýrivextir Seðlabanka Íslands óbreyttir
Stefnuyfirlýsing bankastjórnar Seðlabanka Íslands:
Stýrivextir Seðlabanka Íslands óbreyttir
Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að stýrivextir bankans verði óbreyttir, þ.e. 13,3%. Verðbólguspá sem birtist í Peningamálum í júlí sl. benti til þess að ekki yrði unnt að lækka stýrivexti fyrr en á fyrri helmingi næsta árs. Að mati bankastjórnar er ekki tilefni til að hvika frá því mati að svo stöddu. Nokkur gengisórói hefur verið að undanförnu og verðbólguhorfur til skamms tíma heldur lakari nú en við síðustu vaxtaákvörðun. Til lengri tíma hafa þær hins vegar lítið breyst. Gengisþróun er nú mjög óviss og mun ekki síst ráðast af framvindu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Gengi krónunnar hefur í seinni tíð breyst mjög svipað og gengi annarra hávaxtagjaldmiðla, svo sem gjaldmiðla Nýja-Sjálands og Ástralíu.
Verðbólga hefur hjaðnað eins og gert var ráð fyrir í seinustu spá bankans. Við síðustu mælingu hafði vísitala neysluverðs hækkað um 3,4% á tólf mánuðum en áætluð undirliggjandi verðbólga var talin vera nærri 6%. Ætla má að spá um verðbólgu á þriðja ársfjórðungi haldi en að hún verði heldur meiri á næstu fjórðungum en spáð var þar sem gengi krónunar verði lítið eitt lægra en þá var byggt á. Styrking krónunnar fyrr á árinu skilaði sér ekki að fullu í lægra vöruverði og gefur það tilefni til að ætla að verðlagsáhrif lækkunar gengisins að undanförnu verði hóflegri en ella.
Vísbendingar sýna að innlend eftirspurn er enn kröftug. Enn er mikil spenna á vinnumarkaði, velta vex ört, mikil eftirspurn er eftir fasteignum og útlánavöxtur hefur aukist.
Á hinn bóginn hafa sviptingar á fjármálamörkuðum leitt til þess að lánskjör fjármálafyrirtækja hafa almennt versnað og gætir áhrifanna í útlánakjörum. Einnig er líklegt að óróinn á fjármálamörkuðum muni draga nokkuð úr óraunsærri bjartsýni um efnahagshorfur sem ýtt hefur undir eftirspurn á undanförnum misserum. Hvort tveggja styður við aðhaldsstefnu Seðlabankans. Skerðing aflamarks var einnig nokkru meiri en miðað var við í spá Seðlabankans í júlí. Áhrif skerðingarinnar munu ekki koma fram að fullu fyrr en nokkuð verður liðið á næsta ár.
Greining á langtímaverðbólguhorfum sem birtist í Peningamálum í júlí sl. gildir enn í aðalatriðum. Í henni fólst meðal annars mat á verðbólguhættu vegna hugsanlegrar gengislækkunar af völdum versnandi skilyrða á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þar ríkir enn óvissa og óvarlegt að ætla að öfgafullum sviptingum sé lokið. Framvinda næstu mánaða mun að nokkru mótast af því.
Peningalegt aðhald, ekki síst háir raunstýrivextir, hefur leitt til þess að verðbólga hefur hjaðnað jafnt og þétt. Hnökrar í miðlun peningastefnunnar hafa þó valdið því að verðbólga hefur hjaðnað hægar en ella. Þannig hækkuðu vextir á fasteignaveðlánum minna og hægar en æskilegt hefði verið, sem stuðlaði að áframhaldandi hækkun fasteignaverðs.
Bankastjórn Seðlabankans stefnir sem fyrr að því að ná verðbólgumarkmiðinu innan viðunandi tíma. Ákvörðun bankastjórnar nú tekur mið af verðbólguspánni sem kynnt var í júlí sl. og fól í sér að verðbólga yrði nærri markmiði frá miðju næsta ári. Versni verðbólguhorfur mun bankastjórn bregðast við. Hið sama gildir ef horfur batna frá því sem spáð var.
Næsta ákvörðun bankastjórnar Seðlabankans um stýrivexti verður tilkynnt 1. nóvember n.k. samhliða útgáfu Peningamála. Nr. 18/2007 6. september 2007