28. janúar 2009
Rangar fullyrðingar í Fréttablaðinu um gjaldeyrisforða
Í Fréttablaðinu í dag eru birtar rangar fullyrðingar um gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands og sér bankinn sig knúinn til að leiðrétta þær.Því er haldið fram í frétt og umfjöllun í blaðinu að gjaldeyrisforðinn sé stórlega ofmetinn og að veð gegn tilteknu láni séu færð í gjaldeyrisforða. Þetta er rangt. Þessir liðir eru ekki meðtaldir í forðanum. Útreikningar á gjaldeyrisforða og framsetning hans er hvort tveggja gert í fullu samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og er í einu og öllu farið eftir skilgreiningum hans.
Til upplýsingar skal nefnt að í lok síðasta árs nam gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands 429,4 milljörðum króna, samkvæmt upplýsingum sem voru birtar fyrr í mánuðinum og eru aðgengilegar á vef bankans. Það skal ítrekað að veð sem Fréttablaðið vísar til eru ekki í þeirri tölu.
Nr. 3/2009
28. janúar 2009