logo-for-printing

03. mars 2009

Greiðslujöfnuður við útlönd og erlend staða þjóðarbúsins á fjórða ársfjórðungi 2008

Á vef Seðlabanka Íslands hafa nú verið birt bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á fjórða ársfjórðungi 2008 og um stöðu þjóðarbúsins í lok fjórðungsins.

Viðskiptajöfnuður var óhagstæður um 199,6 ma.kr. á fjórða ársfjórðungi sem er talsvert meiri halli en á fjórðungnum á undan. Rúmlega 33 ma.kr. afgangur var í vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd en rétt yfir 233 ma.kr. halli þáttatekna skýrir óhagstæðan viðskiptajöfnuð.

Halla á þáttatekjum á fjórða ársfjórðungi má að langmestu leyti rekja til taps innlendra aðila á beinni fjárfestingu erlendis og aukins vaxtakostnaðar vegna erlendra skulda.

Hreint fjárinnstreymi nam 224,8 ma.kr. á fjórða ársfjórðungi. Innstreymi fjármagns upp á 542,6 ma.kr. skýrist helst af neikvæðri endurfjárfestingu og sölu á íslenskum félögum erlendis. Útstreymi fjármagns var 315,5 ma.kr. sem að mestu leyti skýrist af neikvæðri endurfjárfestingu erlendra aðila á Íslandi.

Skekkjuliðurinn í ársfjórðungsuppgjörinu er neikvæður um 25 ma.kr. sem er töluvert minna en í síðasta uppgjöri. Neikvæður skekkjuliður skýrist oftast af vanmati á fjármagnshreyfingum. Nákvæmar upplýsingar um viðskipti og tímasetningu þeirra berast með töluverðri töf.

Hrein staða við útlönd var neikvæð um 3.675 ma.kr. í lok fjórða ársfjórðungs og versnaði um 1.341 ma.kr. frá síðasta fjórðungi. Þessi þróun stafar einkum af gengislækkun krónunnar en einnig af erlendri lántöku Seðlabankans. Erlendar eignir námu 9.557 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 13.233 ma.kr. Vert er að geta þess að inni í tölum um erlenda stöðu þjóðarbúsins eru ennþá eignir og skuldir viðskiptabankanna þriggja sem nú eru í greiðslustöðvun.

Frétt nr. 7/2009
3. mars 2009

Sjá fréttina í heild með töflum:

Frétt nr. 7/2009(.pdf)

Til baka