Breytingar á starfsemi sparisjóða í landinu
Stjórnvöld á Íslandi hafa í dag ákveðið að grípa til samhæfðra aðgerða til að verja hagsmuni viðskiptavina sparisjóðanna og tryggja bankaþjónustu um land allt. Með þessum aðgerðum hefur styrkum stoðum verið skotið undir áframhaldandi starfsemi sparisjóða.
Þeim verður þar með gert kleift að taka virkan þátt í endurreisn hagkerfisins. Eins og ríkisstjórnin hefur þegar tilkynnt eru allar innstæður í bönkum og sparisjóðum hér á landi að fullu tryggar.
Fjármálaeftirlitið hefur í dag gripið inn í rekstur SPRON og Sparisjóðabankans á grundvelli laga nr. 125/2008, vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.
Viðskiptavinir SPRON fá sjálfkrafa aðgang að innstæðum sínum og njóta annarrar bankaþjónustu hjá Nýja Kaupþingi. Sama gildir um viðskiptavini Netbankans. Viðskiptavinir SPRON geta nálgast upplýsingar á vefsíðum og í útibúum fyrirtækjanna, þar sem starfsfólk veitir viðskiptavinum nánari leiðbeiningar.
Greiðslumiðlun Sparisjóðabankans færist yfir til Seðlabanka Íslands.