logo-for-printing

08. apríl 2009

Yfirlýsing peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands: Áfram dregið varlega úr peningalegu aðhaldi

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka stýrivexti bankans um 1,5 prósentur í 15,5%. Niðurstaða funda nefndarinnar í mars sl. var að skilyrði væru til þess að draga úr peningalegu aðhaldi. Framvinda efnahagsmála frá 19. mars sl. hefur í stórum dráttum verið í samræmi við þá niðurstöðu.

Sem fyrr er gengisstöðugleiki skammtímamarkmið peningastefnunnar við núverandi aðstæður, þótt stöðugt verðlag sé markmið hennar til lengri tíma litið. Það stafar einkum af því að nauðsynlegt er að verja viðkvæman efnahag heimila og fyrirtækja á tímum endurskipulagningar efnahagslífsins.

Gengi krónu hefur lækkað um tæplega 9% frá 19. mars. Lækkun krónunnar virðist mega rekja til tímabundinna þátta, t.d. tiltölulega mikilla árstíðarbundinna vaxtagreiðslna af krónuskuldabréfum og innstæðum í eigu erlendra aðila. Þótt afgangur hafi verið á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd ríkir enn mikil óvissa um viðskiptajöfnuðinn í heild. Að auki eru vísbendingar um að farið hafi verið í kringum gjaldeyrishöftin. Stjórnvöld hafa brugðist við því með breytingu á viðeigandi lögum.

Peningastefnunefndin telur ólíklegt að ákvörðun hennar um að lækka stýrivexti bankans um eina prósentu hinn 19. mars hafi haft veruleg áhrif á gengi krónunnar. Sá vaxtamunur sem er til staðar milli krónunnar og helstu gjaldmiðla ætti að gefa svigrúm til áframhaldandi hægfara slökunar peningalegs aðhalds án þess að það grafi undan stöðugleika krónunnar. Frá lokum síðasta árs hefur munur innlendra stýrivaxta og stýrivaxta á evrusvæðinu aukist lítillega.

Verðbólguþrýstingur er enn á undanhaldi. Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,6% milli mánaða í mars. Verðbólga nam 15,2% og hafði minnkað úr 18,6% í janúar. Hjöðnun verðbólgunnar tengist snörpum samdrætti innlendrar eftirspurnar og hagstæðri gengisþróun.

Eftirspurn eftir húsnæði hefur verið afar lítil og skilað sér í lækkun húsnæðisliðar vísitölu neysluverðs. Vísbendingar um innlenda eftirspurn, svo sem tölur um veltu, benda til áframhaldandi samdráttar innlendrar eftirspurnar á fyrsta fjórðungi ársins. Viðhorfsvísitala fyritækja hefur hækkað lítillega frá sögulegu lágmarki. Áfram dregur úr eftirspurn á vinnumarkaði, atvinnulausum fjölgar hratt og launaþrýstingur er óverulegur. Peningastefnunefndin telur þessa þróun benda til þess að áfram muni draga hratt úr verðbólgu, u.þ.b. í samræmi við spá Seðlabankans í janúar. Verðbólguvæntingar fyrirtækja hafa jafnframt lækkað hratt.

Gengishækkun krónunnar í janúar og febrúar stuðlaði að því að hratt dró úr verðbólgu. Þótt gengið hafi lækkað á ný í marsmánuði, er ekki líklegt að það hægi verulega á hjöðnun verðbólgunnar, enda hefur samdráttar innlendrar eftirspurnar verið mjög snarpur. Í ljósi langtímagrunnþátta er líklegt að krónan nái sér á strik á ný, og væri það í samræmi við mat peningastefnunefndarinnar við vaxtaákvörðun í marsmánuði.

Höft á fjármagnshreyfingar koma í veg fyrir óstjórnlegt útflæði fjármagns. Höftin eru óheppilegur, en óhjákvæmilegur þáttur efnahagsáætlunar sem hefur það að markmiði að verja viðkvæma efnahagsreikninga og stuðla að sjálfbærum efnahagsbata. Í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar frá 19. mars sl. er greint frá þeirri niðurstöðu hennar að nauðsynleg skilyrði þess að aflétta höftunum væru ekki enn fyrir hendi. Betri upplýsingar um greiðslujöfnuð við útlönd, stöðu hins opinbera til langs tíma litið og árangur við endurreisn fjármálakerfisins eru forsendur þess að taka stór skref í átt til afnáms haftanna. Innlendar og erlendar aðstæður gefa enn sem komið ekki færi á afnámi haftanna án verulegrar hættu á óstöðugleika. Seðlabankinn mun eigi að síður leggja reglulega mat á skilvirkni þeirra og leita leiða til að draga úr þeim í áföngum þegar skilyrði skapast til þess.

Næsta yfirlýsing peningastefnunefndarinnar verður birt 7. maí 2009.

Nr. 13/2009
8. apríl 2009

Til baka