logo-for-printing

18. september 2009

Eftirlit með gjaldeyrisreglum styrkt

Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að endurskipuleggja og efla starfsemi gjaldeyriseftirlits innan bankans. Markmiðið með þeim breytingum er að styrkja eftirlit með gildandi gjaldeyrishöftum. Gjaldeyriseftirlitið verður hér eftir sjálfstæð eining innan Seðlabankans og heyrir beint undir seðlabankastjóra. Yfirmaður gjaldeyriseftirlitsins verður Ingibjörg Guðbjartsdóttir lögfræðingur, en með henni verða a.m.k. þrír aðrir starfsmenn í eftirlitinu, auk þess sem það mun njóta stuðnings sérfræðinga á öðrum sviðum Seðlabankans.

Sérstök ráðgjafarnefnd verður gjaldeyriseftirlitinu til stuðnings. Hún verður skipuð aðstoðarseðlabankastjóra, aðallögfræðingi bankans og fjórum öðrum sérfræðingum eða yfirmönnum í bankanum. Ráðgjafarnefndin mun hafa eftirlit með störfum gjaldeyriseftirlitsins, stuðla að virku samstarfi þess og annarra sviða innan Seðlabankans og sinna stefnumótun, m.a. varðandi afnám gjaldeyrishafta, eftirlit og framfylgd reglna.

Mikilvægur þáttur í eflingu gjaldeyriseftirlitsins er að bæta upplýsingaöflun Seðlabankans, bæði frá fjármálafyrirtækjum og öðrum aðilum. Þá verður samstarf við opinbera aðila aukið. Bankinn vinnur nú þegar náið með Fjármálaeftirlitinu að rannsókn brota á gjaldeyrislögum og reglum settum á grundvelli þeirra. Að undanförnu hefur fjöldi mála verið til skoðunar hjá Seðlabanka Íslands og nokkrir tugir mála eru nú í rannsókn.

Endurskipulagning gjaldeyriseftirlitsins sem hér er kynnt breytir í engu þeirri áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem var kynnt 5. ágúst síðastliðinn. Samkvæmt henni er áformað að stíga fyrstu skrefin í þeim efnum eigi síðar en 1. nóvember næstkomandi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Mikilvægur þáttur áætlunarinnar er að efla eftirlit með þeim höftum sem eftir verða og framfylgja þeim af meiri krafti.

Nánari upplýsingar veitir Ingibjörg Guðbjartsdóttir, forstöðumaður gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands í síma 569 9600.

 

Nr. 30/2009

18. september 2009

Skipurit gjaldeyriseftirlitsins 2009

Til baka