logo-for-printing

05. janúar 2010

Matsfyrirtækið Fitch lækkar lánshæfiseinkunn ríkissjóðs í BB+/BBB+; horfur neikvæðar

Matsfyrirtækið Fitch Ratings greindi í dag frá lækkun lánshæfismats Íslands í innlendri og erlendri mynt. Langtímaeinkunnir Íslands í erlendum og innlendum gjaldmiðli eru nú BB+ og BBB+ og skammtímaeinkunn í erlendri mynt er nú B. Landseinkunn lækkar úr BBB- í BB+.

Meðfylgjandi er lausleg þýðing á efni fréttar Fitch Ratings í dag um lánshæfiseinkunn ríkissjóðs:

FITCH lækkar lánshæfismat Íslands í BB+/BBB+, horfur neikvæðar

Lundúnum 5. janúar 2010: Matsfyrirtækið Fitch Ratings lækkaði í dag lánshæfiseinkunnir Íslands í erlendri og innlendri mynt til langs tíma, í BB+ og BBB+ úr BBB- og A-. Horfur fyrir báðar langtímaeinkunnir eru neikvæðar. Um leið lækkaði Fitch skammtímaeinkunn Íslands í erlendri mynt í B úr F3 og lækkaði landseinkunn í BB+ úr BBB-.
„Sú ákvörðun forseta Íslands í dag að vísa „Icesave-samningnum“ til þjóðaratkvæðagreiðslu vekur aftur öldu stjórnmálalegrar, efnahagslegrar og fjármálalegrar óvissu innanlands. Hún felur í sér verulegan afturkipp í viðleitni Íslands til að endurreisa eðlileg fjármálaleg tengsl við umheiminn,“ segir Paul Rawkins, aðstoðarframkvæmdastjóri greiningarteymis matsfyrirtækisins Fitch í Lundúnum.

Alþingi samþykkti samninginn 30. desember 2009.

„Þess vegna, að mati Fitch, er lánshæfi ríkissjóðs í erlendri mynt ekki lengur í samræmi við skilyrði um fjárfestingarflokk,“ bætir Rawkins við. Fitch hefur ítrekað að lausn „Icesave-málsins“, tvíhliða samnings við bresk og hollensk stjórnvöld til að fjármagna bætur til innstæðueigenda „Icesave-reikninga“, sé lykilatriði til að hægt verði að endurreisa lánstraust ríkissjóðs.

Þetta síðasta bakslag vekur að nýju óvissu um tvíhliða og marghliða fjármögnun efnahagsáætlunar Íslands í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ennfremur skapast hætta á að enn frekari dráttur verði á því að mögulegt verði að afnema gjaldeyrishöft sem áfram binda verulegar fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum krónum og að hægt verði að koma á trúverðugu markaðsákvörðuðu gengisfyrirkomulagi sem nauðsynlegt er til að þjóðarbúið fái að nýju aðgang að erlendu fjármagni næstu misserin.

Neikvæðar horfur endurspegla áframhaldandi óvissu um lausn „Icesave-málsins“, þann möguleika að fjárhagsleg einangrun Íslands á alþjóðavettvangi aukist og þá hættu að sú áætlun um að koma á efnahagslegum stöðugleika og efnahagsbata sem unnið hefur verið að stöðvist. Þær forsendur sem liggja til grundvallar má sjá á vefsíðu Fitch: www.fitchratings.com: „Sovereign Rating Methodology“, frá 16. október 2009.

Sjá frétt Fitch Ratings í dag:

Fitch_Iceland_050110.pdf

Sjá einnig heimasíðu Fitch Ratings:
https://www.fitchratings.com/site/home

Til baka