Yfirlýsing peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands: Vextir Seðlabankans lækkaðir
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækka í 8,0%. Hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum verða 9,25%. Vextir á lánum gegn veði til sjö daga verða 9,5% og daglánavextir 11,0%.
Gengi krónunnar hefur í meginatriðum haldist stöðugt frá síðasta fundi nefndarinnar, og raunar frá síðasta sumri, og án nokkurra inngripa Seðlabanka frá byrjun nóvembermánaðar. Gengi krónunnar hefur haldist stöðugt þrátt fyrir þróun heima fyrir og erlendis sem ætla mátti að hefði neikvæð áhrif á gengið, sérstaklega nýlegar hræringar tengdar ákvörðun forsetans um að staðfesta ekki Icesave-lögin. Gengisstöðugleikinn endurspeglar árangur í framfylgd gjaldeyrishaftanna og smám saman hagstæðari undirliggjandi viðskiptajöfnuð.
Að ekki skuli hafa tekist að leysa deiluna um bætur til innstæðueigenda útibúa Landsbankans erlendis hefur leitt til þess að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hjá einu matsfyrirtækjanna hefur verið lækkuð í áhættuflokk. Það gæti einnig tafið fyrir endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og orðið til þess að lánveitingar frá sjóðnum og erlendum ríkisstjórnum, sem eru forsenda fyrir árangursríkri lántöku á alþjóðlegum lánamörkuðum, tefjast einnig. Að því gefnu að gjaldeyrishöftin haldi, ættu skammtímaáhrif á krónuna að vera lítil. Hins vegar væri áhættusamt að taka fleiri skref til afnáms gjaldeyrishaftanna á meðan þessi óvissa varir.
Verðbólga hjaðnaði áfram í desember og janúar, ívið meira en spáð var í nóvember. Í janúar mældist verðbólgan 6,6%, eða 5,2% ef áhrif hærri neysluskatta eru frátalin. Lækkun vísitölunnar um 0,3% í janúar var óvænt. Eigi að síður er því spáð að undirliggjandi verðbólga hjaðni hægar á þessu ári en spáð var í nóvember, en muni þó ná verðbólgumarkmiðinu seint á árinu.
Haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist, og verðbólga hjaðnar eins og spáð er, ættu forsendur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds að vera áfram til staðar.
Svigrúm peningastefnunefndarinnar til vaxtalækkunar verður þó takmarkað svo lengi sem veruleg óvissa ríkir um aðgengi Íslands að alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Eins og ávallt er nefndin reiðubúin til að breyta aðhaldi peningastefnunnar eins og nauðsynlegt er með hliðsjón af því tímabundna markmiði hennar að stuðla að gengisstöðugleika og í því skyni að tryggja að verðbólga verði nálægt markmiði til lengri tíma litið.
Nr. 2/2010
27. janúar 2010