logo-for-printing

30. júní 2010

Inngangsorð Gunnars Þ. Andersen forstjóra Fjármálaeftirlitsins á blaða- og fréttamannafundinum í morgun

Tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða

Inngangsorð forstjóra Fjármálaeftirlitsins

Við stöndum andspænis þeirri staðreynd að skapast hefur mikil óvissa í kjölfar dóms Hæstaréttar sem truflar stöðuleika fjármálakerfisins. Það er skylda Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans að skapa festu í viðskiptum á fjármálamarkaði og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi. Þegar ríkir almannahagsmunir sem felast í ofangreindum markmiðum, sem löggjafinn hefur sett þessum stofnunum, rekast á sérhagsmuni ákveðinna hópa, ber þeim að vinna í þágu almannahagsmuna. Með tilmælum þessum, sem kynnt eru hér í dag, eru Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands ekki að skipa sér í flokk með einum aðila – eða hóp aðila – á móti öðrum, heldur að gegna hlutverki sínu sem eftirlitsstofnanir og bregðast við þeirri óvissu sem hefur skapast.

Í fyrsta lagi beinum við þeim tilmælum til fjármálafyrirtækja að í lánasamningum sem að mati þeirra innihalda óskuldbindandi gengistryggingarákvæði, samanber nýgengna dóma Hæstaréttar, miði þau við vexti sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum eða verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og beitt er þegar óvissa ríkir um lánakjör. Í öðru lagi förum við fram á að miðað verði við þessar forsendur svo fljótt sem auðið er. Í þriðja lagi biðjum við fyrirtækin að endurmeta eiginfjárþörf sína í ljósi aðstæðna. Og í fjórða lagi beinum við þeim tilmælum til þeirra að skýrslugjöf um gjaldeyrisjöfnuð, lausafjárstöðu og eiginfjárstöðu til Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands verði miðuð við þessar forsendur.

Nú blasir það við að hvert fjármálafyrirtæki verður að fara vandlega yfir eignasafn sitt og leggja á það kalt mat hvort líklegt sé að hinar ýmsu tegundir samninga verði dæmdar ólögmætar. Telji þau miklar líkur til þess að tilteknir samningar verði dæmdir ólögmætir eða falli fleiri dómar þeim í óhag síðar er til þess mælst að farið verði eftir fyrrnefndum lagaákvæðum við ákvörðun vaxta. Það er hins vegar fjármálafyrirtækjanna sjálfra að ákveða í hvaða tilvikum þau vilja verjast fyrir dómi og í hvaða tilvikum þau vilja það ekki. Í mörgum tilvikum munu þau eflaust kjósa að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort tilteknar gerðir samninga séu lögmætir eða ekki. Eftirlitsstofnanir geta ekki tekið þann rétt af þeim. Fjármálafyrirtækjum er auðvitað einnig frjálst að semja um aðrar lausnir við sína viðskiptavini – samningsfrelsi þeirra hefur ekki verið skert – en þau verða að gæta þess að slíkar lausnir skerði ekki eigin fé lánafyrirtækjanna úr hófi fram.

Á næstu vikum og mánuðum mun upplýsingaöflun halda áfram. Kallað hefur verið eftir ítarlegum upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum, er miða að því að kortleggja þá flóru samninga sem fyrirtækin hafa gert og gætu reynst innihalda ólögmæt samningsákvæði. Þá eru fyrirtækin beðin um að endurmeta eiginfjárþörf sína í ljósi þeirra upplýsinga. Þegar ítarlegar upplýsingar liggja fyrir ættu stjórnvöld að hafa traustan grunn til þess að meta hvort frekari aðgerða sé þörf.

Þegar Fjármálaeftirlitið lagði mat á viðskiptaáætlanir nýju bankanna á síðasta ári með hliðsjón af meðal annars áhættustýringu og stjórnun var gerð krafa um 16% CAD hlutfall til þeirra allra. Þetta var gert til að hafa borð fyrir báru vegna mögulegra áfalla í framtíðinni. Enn fremur gerðum við þá kröfu til eigenda bankanna að þeir sýndu fram á styrk í formi viðbragðssjóðs sem þeir gætu gripið til til að mæta áföllum. Þessar ákvarðanir hafa reynst réttar í ljósi þess sem nú hefur gerst. Vandinn er svo stór að miðað við dekkstu sviðsmyndir gæti þetta hlutfall farið niður fyrir lágmarkið sem við settum, þ.e. 16%. Erfitt er að segja á þessari stundu hvort það gæti farið niður fyrir lögbundið 8% lágmark. Þörf fyrir – og stærð – viðbótareiginfjárframlags eigenda kemur ekki í ljós fyrr en greiningu sem Fjármálaeftirlitið hefur sett af stað er lokið.

Spurt hefur verið hvort það komi til greina að endurskoða eiginfjárkröfu til þeirra lánastofnana sem þetta gæti átt við um. Svarið við því veltur að sjálfsögðu á því hvert framhaldið verður og hvernig óvissu verður eytt, hvort sem er með nýjum dómi eða á annan hátt. Ég vil bara segja það að lokum að Fjármálaeftirlitið hefur lagt áherslu á að bregðast við aðstæðum á grunni faglegs mats á stöðunni. Okkar hlutverk er að stuðla að festu og öryggi í íslensku fjármálalífi og vinna í þágu almannahagsmuna – án tillits til vinsælda. Það munum við gera áfram.

Til baka