logo-for-printing

30. júlí 2010

Moody's breytir horfum á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Baa3 úr stöðugum í neikvæðar

Matsfyrirtækið Moody's breytti í gær horfum á Baa3 lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands fyrir innlendar og erlendar skuldbindingar úr stöðugum í neikvæðar. Moody's breytti einnig horfum á lánshæfisþaki Íslands fyrir erlendar langtíma- og skammtímaskuldbindinga úr stöðugum í neikvæðar.

Meðfylgjandi er lausleg þýðing á efni fréttar Moody's frá því í gær um lánshæfiseinkunn ríkissjóðs:

„London, 29, júlí 2010 - Matsfyrirtækið Moody‘s breytti í dag horfum á Baa3 lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands fyrir innlendar og erlendar skuldbindingar úr stöðugum í neikvæðar.

Þessi breyting á lánshæfismati á rætur sínar að rekja til nýlegs dóms hæstaréttar um ólögmæti gengisbundinna lána og áframhaldandi erfiðleika stjórnvalda við að leysa Icesave deiluna við bresk og hollensk stjórnvöld. Dómur hæstaréttar getur haft þau áhrif að bankarnir tapi töluverðu fé á gengisbundnum lánum til innlendra lántaka og gæti bankakerfið því þurft aukinn stuðning frá stjórnvöldum. Takist ekki gæti það leitt til þess að Norðurlöndin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn haldi að sér höndum hvað varðar frekari lánafyrirgreiðslu til íslenskra stjórnvalda.

Þessir tveir óvissuþættir endurspegla þá ósamhverfu áhættu sem Ísland stendur frammi fyrir og skýrir neikvæðar horfur á lánshæfiseinkunnir.
Moody‘s breytti einnig í dag horfum á lánshæfisþaki Íslands Baa2 fyrir erlendar langtímaskuldbindingar úr stöðugum í neikvæðar. Horfum fyrir lánshæfisþak erlendra skammtímaskuldbindinga hefur einnig verið breytt úr stöðugum í neikvæðar.

RÖKSTUÐNINGUR FYRIR NEIKVÆÐAR HORFUR Á LÁNSHÆFISEINKUNN RÍKISSJÓÐS ÍSLANDS

„Ekki er vitað hversu umfangsmikið tap bankakerfisins verður vegna nýlegrar niðurstöðu hæstaréttar, en það er ljóst að Ísland stendur andspænis töluverðri óvissu hvað varðar efnahagslegan og fjárhagslegan bata,“ segir Kathrin Muehlbronner, varaforseti hjá Moody‘s og sérfræðingur í málefnum Íslands. Hinn 16. júní lýsti hæstiréttur því yfir að gengisbundin lán væru ólögleg og óskuldbindandi.

Frekari niðurstöðu er að vænta frá hæstarétti í haust hvað varðar viðeigandi vexti lána sem verða færð úr erlendum gjaldmiðli í innlendan. Það er einnig óljóst á þessu stigi málsins hvort dómurinn muni eiga við um öll gengisbundin lán (sem eru um 50% af útistandandi lánum) eða aðeins um hluta (t.d. aðeins lán heimila). „Þrátt fyrir að bankarnir hafi svigrúm til að mæta tapi þar sem eiginfjárhlutfall þeirra er hátt, útilokar Moody‘s ekki að íslenskir bankar muni verða fyrir frekara tapi í kjölfar úrskurðar hæstaréttar“ segir Kathrin Muehlbronner. „Þar að auki gæti þetta leitt til þess að stjórnvöld, sem eini raunhæfi fjárveitandinn, þurfi að veita frekara fjármagni inn í bankana.

Þetta er ekki eina óvissan sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir: Icesave deilan við bresk og hollensk stjórnvöld er enn óleyst. Það er skoðun Moody‘s að þetta gæti mögulega haft neikvæð áhrif á fjármögnun frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndum og tímaramma fyrir afléttingu gjaldeyrishafta. Þrátt fyrir að nýlegar efnahagsstærðir séu jákvæðar er það skoðun Moody‘s að töluverð viðvarandi óvissa geti haft neikvæð áhrif á efnahagsbata Íslands.

Eins og er spáir Moody‘s því að hagvöxtur verði jákvæður 2011, en þessi spá er háð þeirri áhættu sem er til staðar. Moody‘s bendir á að skuldastaða íslenska ríkisins sé nú þegar há miðað við núverandi lánshæfismat þess. Jafnframt sé því spáð að heildarskuldir ríkisins nái 150% af VLF á þessu ári og að hreinar skuldir þess verði 86%. Samkvæmt spá fyrir næsta ár munu hreinar skuldir nálgast 100% af VLF.

MÖGULEG ÁHRIF TIL LÆKKUNAR LÁNSHÆFISMATS

Matsfyrirtækið segir að eftirfarandi þættir gætu leitt til neikvæðra áhrifa á lánshæfismat íslenska ríkisins: (1) Merki um að yfirstandandi óvissa muni hafa neikvæð áhrif á raunhagkerfið, (2) áframhaldandi álag á bankakerfið og þar með þörf á frekari innspýtingu fjármagns frá ríkinu, sem myndi síðan auka við háar skuldir ríkisins, og (3) þrýstingur á erlenda lausafjárstöðu, m.a. vegna óleystrar Icesave deilu.

Á hinn bóginn benda Moody‘s á að merki um frekari endurreisn efnahagsins hérlendis gætu haft jákvæð áhrif á lánshæfismat Íslands, sem og árangursríkar lausnir á núverandi óvissuþáttum.

FYRRA MAT

Síðasta lánshæfiseinkunn Íslands, gefin af Moody‘s var birt 23. apríl 2010, þegar matsfyrirtækið breytti horfum á Baa3 einkunn ríkisins úr neikvæðum í stöðugar.“

Hér má sjá fréttatilkynningu Moody‘s frá því í gær:

Moodys_press release_29July2010.pdf

Til baka