logo-for-printing

25. nóvember 2010

Ræða Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á aðalfundi Sambands íslenskra sparisjóða

25. nóvember 2010

 

Már Guðmundsson:

Ræða á aðalfundi Sambands íslenskra sparisjóða

 

Fundarstjóri, góðir fundargestir

Ég vil byrja á því að þakka fyrir það góða boð að fá að ávarpa ykkur hér í dag. Ég hef lengi talið að sparisjóðir séu mikilvægur hluti af fjármálakerfi okkar og geti orðið svo einnig í framtíðinni sé rétt á spilum haldið. En ég kem nánar að því á eftir. Fyrst vil ég fara nokkrum orðum um ástand og horfur í efnahagsmálum og síðan fjalla um stöðu fjármálakerfisins, en Seðlabankinn gaf út í dag aðra skýrslu sína á þessu ári um fjármálastöðugleika.

Efnahagsmál okkar um þessar mundir einkennast af því að mikill árangur hefur náðst varðandi stöðugleika en öflugur endurbati hefur hingað til látið á sér standa.

Lítum fyrst á stöðugleikamerkin. Þar er fyrst að nefna að ytra ójafnvægi þjóðarbúsins er horfið. Gífurlegur viðskiptahalli ofþensluáranna hefur snúist í myndarlegan undirliggjandi viðskiptaafgang en þá er litið framhjá reiknuðum vöxtum í þrotabúum föllnu bankanna, en þeir vextir verða ekki nema að hluta til greiddir. Viðskiptaafgangurinn styður við gengi krónunnar en það gera líka gjaldeyrishöftin. Gengisfallið stöðvaðist reyndar um mitt síðasta ár og gengið þurfti í framhaldinu engan stuðning í gegnum inngrip Seðlabankans sem hafa ekki átt sér stað síðan snemma í nóvember á síðasta ári. Það sem af er þessu ári hefur viðskiptavegið gengi krónunnar styrkst um rúmlega 13%. Síðan hefur Seðlabankinn lagst á hina sveifina frá því síðla í ágúst og keypt gjaldeyri á markaði fyrir rúmlega 4 ma.kr. Það er auðvitað ekki mikið en mjór er mikils vísir og hægt verður að auka kaupin þegar innflæði gjaldeyris eykst frá því sem nú er.

Verðbólgan hefur nú minnkað úr um 18% snemma árs 2009 í 2,6% samkvæmt nýjustu mælingu sem birt var nú í morgun. Verðbólgumarkmið Seðlabankans, sem er 2½%, hefur því náðst og ef horft er framhjá skattaáhrifum er 12 mánaða verðbólga reyndar komin undir markmið, eða í tæplega 2%. Gengisstöðugleiki og síðar hækkun hefur auðvitað leikið meginhlutverk í þessari hjöðnun verðbólgu. En slakinn í hagkerfinu hefur reyndar einnig átt töluverðan hlut að máli svo og tiltölulega varfærin peningastefna miðað við aðstæður. Það er alls ekkert sjálfgefið að þessi árangur myndi nást og slakinn einn og sér býr ekki til verðstöðugleika eins og ótal söguleg dæmi sýna. Til viðbótar þurfti því gengisstöðugleikann og  það að verðbólguvæntingar hnigu að markmiði.

Þessi árangur hefði ekki náðst nú ef farið hefði verið að ýtrustu kröfum um snarpa og ótímabæra lækkun vaxta. Vextir hafa þó auðvitað lækkað verulega. Þannig hafa virkir stýrivextir Seðlabankans lækkað úr 18% í upphafi 2009 (þá sjö daga veðlánavextir) en eru nú rúmlega 4½% (meðaltal innstæðuvaxta og vaxta innstæðubréfa) og hafa aldrei verið lægri í nær fimmtíu ára sögu bankans. Peningastefnunefnd taldi í síðustu yfirlýsingu að svigrúm sé enn til staðar til frekari lækkunar seðlabankavaxta að því gefnu að gengi krónunnar haldist stöðugt og verðbólga hjaðni eins og spáð er. Nýjasta verðbólgumæling undirstrikar þetta svigrúm. Miðað við slakann í hagkerfinu eru virkir raunstýrivextir sem nema á bilinu 2-2½% einfaldlega of háir eftir að markmið um gengisstöðugleika og verðbólgu hafa náðst.

En hvað þá með hagvöxtinn, er hann hafinn? Samkvæmt þeirri spá sem Seðlabankinn birti fyrr í þessum mánuði er það svo. Árstíðarleiðrétt landsframleiðsla á að hafa aukist á milli annars og þriðja ársfjórðungs. Þær vísbendingar sem hafa komið fram síðan styrkja þá spá. En ársfjórðungslegar mælingar á landsframleiðslu hafa verið óstöðugar og háðar miklum endurskoðunum. Við fáum fyrsta mat Hagstofunnar á landsframleiðslu þriðja ársfjórðungs snemma í desember.

Samkvæmt spá Seðlabankans mun hagvöxtur síðan halda áfram næstu misserin. Þannig mun landsframleiðsla aukast um rétt 2% milli áranna 2010 og 2011 og síðan 2,7% 2012 og 3% 2013. Þetta mun nægja til þess að atvinnuleysi fari lækkandi frá og með öðrum ársfjórðungi næsta árs en atvinnuleysi lækkar yfirleitt nokkru eftir að hagvöxtur hefur náð sér á strik. Því er síðan spáð að það muni lækka jafnt og þétt á spátímabilinu og verði um 3% í lok ársins 2013.

En þetta eru eins og sagt er „bara spár“ og óvissan er meiri en í meðalári. Utanaðkomandi þættir geta breytt myndinni en stjórnvöld geta líka haft töluverð áhrif á þróunina, bæði til góðs og ills. Þannig gæti hagvöxtur orðið minni ef bakslag kemur í alþjóðlegan efnahagsbata, ef frekari tafir verða á stórum fjárfestingarverkefnum sem verið hafa í burðarliðnum, og ef heimilin kjósa að laga hreina eignastöðu sína hraðar en hér er gert ráð fyrir og spara meira og neyta minna. Neikvæðu áhrifin af því síðastnefnda munu hins vegar til lengdar deyja út og í litlu opnu hagkerfi eins og því íslenska ættu langtímaáhrifin að vera jákvæð. Hagvöxturinn gæti hins vegar líka orðið mun meiri, sérstaklega ef áhættuálag Íslands á alþjóðlegum mörkuðum lækkar verulega á næstunni, brautin er rudd inn á erlenda lánamarkaði, bein erlend fjárfesting eykst og almenn atvinnuvegafjárfesting verður sterkari.

Um það bil 3% hagvöxtur eins og nú er spáð á árunum 2012 og 2013 er auðvitað ágætur í meðalárferði. En samantekinn er hagvöxturinn á árunum 2011 og 2012 veikur í ljósi þess mikla slaka sem nú er í íslensku efnahagslífi. Það sem meira er, undirstöðurnar eru ekki vel traustar þar sem framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtarins er neikvætt og fjárfesting mun verða verulega fyrir neðan sögulegt meðaltal jafnvel þó svo að hún muni aukast töluvert frá því sem nú er.

Einn af þeim þáttum sem heldur aftur af hagvexti er lágt stig fjárfestingar um þessar mundir og reyndar á  næstu árum samkvæmt spá bankans.  Þessi þróun fjárfestingarstigsins er ekki í ósamræmi við reynslu ýmissa annarra þjóða sem hafa búið við hátt fjárfestingarhlutfall í aðdraganda fjármálakreppu. Samt er það auðvitað visst áhyggjuefni og mikilvægt verkefni að vinna að því að þetta verði „bara spár“ því ekkert er óhjákvæmilegt í þessum efnum. Ég hef að undanförnu lagt áherslu á það í ræðum mínum að þótt vaxtastigið hafi auðvitað einhver áhrif á fjárfestingarstigið þá sé það líklega um þessar mundir langt í frá að vera sá áhrifaþáttur sem mestu skiptir, sérstaklega eftir að vextirnir eru orðnir eins lágir og raun ber vitni. Ég held að hér leiki aðrir þættir miklu meira hlutverk eins og áhættufælni í framhaldi af fjármálakreppu, óvissa um eftirspurn og rekstrarumhverfi, skertur aðgangur að erlendu lánsfé og laskaðir efnahagsreikningar fyrirtækja. Í þessu þarf að vinna og það er meðal annars þess vegna sem það er svo brýnt að aukinn kraftur komist í fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja og reyndar heimila líka. En þá komum við að stöðu fjármálastofnana því að þessi verk mun sækjast því betur því traustari sem þær eru.

Enn er óvissa um eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækja og skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Mikilvægt er að minnka þessa óvissu til að traust skapist á fjármálafyrirtækjunum og fjárfesting og þjóðarbúskapurinn nái sér á strik. Seinni dómur Hæstaréttar um gengisbundin lán sem kveðinn var upp í septembermánuði sló gólfi undir neikvæð áhrif ólöglegrar gengistryggingar á eigið fé fjármálafyrirtækjanna, þótt áfram ríki nokkur óvissa um hversu víðtækt vandamálið er. Frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um gengislán er því mikilvægt skref til þess að flýta niðurstöðu í því efni og stuðla þannig að því að meiri skriður komist á fjárhagslega endurskipulagningu heimila og fyrirtækja.

Á næstu mánuðum mun skýrast hvort ólögmæti gengistryggingar hefur þær afleiðingar að eigendur fjármálafyrirtækja þurfi að leggja þeim til aukið eigið fé. Það mun þó ekki nægja til að gefa fjármálafyrirtækjunum það heilbrigðisvottorð sem þarf til þess að hægt sé að losa verulega um gjaldeyrishöftin. Fjármögnun fjármálafyrirtækja er nú varin af höftunum og yfirlýsingu stjórnvalda um að innlán séu að fullu tryggð. Mikilvægt er að traust á fjármálakerfið verði nægjanlegt til að fjármögnun kerfisins standist án þessara varna. Í því sambandi er það einnig mikilvægt viðfangsefni að endurreisa virkni fjármálamarkaða sem áður léku stórt hlutverk í fjármögnun og áhættudreifingu og að opna á ný aðgang fjármálafyrirtækja og annara aðila að erlendum lánamörkuðum. Þetta verða verkefni næstu missera ásamt vinnu við að þróa regluverk og eftirlit sem dugar betur til að  draga úr líkum á fjármálaáföllum en það fyrirkomulag sem var fyrir hrun.

Regluverk um fjármálastarfsemi hér á landi mun auðvitað taka mikið mið af því sem gerist í þeim efnum á alþjóðlegum vettvangi. Þar hefur verið unnið mikið starf á undanförnum misserum við að móta regluverk fyrir fjármálastarfsemi sem tekur mið af lærdómum fjármálakreppunnar. Mikilvægur áfangi náðist í Basel hinn 12. september sl. þegar fundur seðlabankastjóra og forstjóra fjármálaeftirlita þeirra landa sem aðild eiga að Basel-nefndinni um bankaeftirlit staðfesti ný viðmið varðandi eiginfjárhlutfall, skuldsetningarhlutfall og laust fé banka. Pakkinn gengur nú undir nafninu Basel-III og mun hvað eigið fé varðar taka gildi í áföngum á árunum 2013 til 2019. 

Hin nýju viðmið fela í sér að lágmarkskröfur um eigið fé banka verða auknar umtalsvert og samsetning þess er bætt með því að auka vægi bókfærðs eiginfjár. Að meðtöldum svokölluðum varúðarsjóð eykst krafan um bókfært eigið fé úr 2% í 7%. Markmiðið er að fjármálafyrirtæki geti í ríkari mæli staðið af sér áföll í framtíðinni. Til viðbótar við ofangreindar lágmarkskröfur er gert ráð fyrir sveigjanlegri eiginfjárkröfu á bilinu 0-2,5% sem ákveðin verði fyrir bankakerfið í heild í hverju einstöku landi með hliðsjón af almennri útlánaþróun og öðrum þáttum sem haft geta áhrif á áhættu kerfisins. Slík sveigjanleg eiginfjárkrafa flokkast undir þjóðhagsvarúðareftirlit fremur en eindarvarúðareftirlit, því að hún hefur þau áhrif að draga úr útlána- og eignaverðssveiflum og mildar þannig hagsveifluna. Notkun stýritækja á sviði þjóðhagsvarúðar þarf að byggja bæði á þjóðhagslegri greiningu og á greiningu á áhættu í fjármálakerfinu í heild. Í því felst meira en samlagning áhættu einstakra fjármálafyrirtækja. Þá þarf að samstilla notkun slíkrar fjármálastöðugleikastefnu við peningastefnuna. Þetta þarf að hafa í huga þegar tekin er ákvörðun um hvernig og af hverjum þessum stýritækjum er beitt en það er hverri þjóð í sjálfsvald sett. Íslendingar þurfa að kynna sér vel hinar nýju viðmiðunarreglur sem felast í Basel-III en þær munu rata inn í ESB-regluverk og þannig inn í hið íslenska í gegnum EES-samninginn. Þá mega Íslendingar ekki gleyma því sem þeim varð svo hált á í aðdraganda fjármálakreppunnar að alþjóðleg viðmið varðandi reglur um eigið og laust fé banka fela í sér lágmarksviðmiðun sem ekki er víst að dugi við eftirlit og stjórnun á innlendu fjármálakerfi.

Margvísleg vinna hefur einnig verið í gangi hér á landi til að bæta regluverk og eftirlit með fjármálastarfsemi. Þegar hafa verið færðar í lög breytingar sem bæta úr ýmsum veikleikum sem voru í regluverki innlendra fjármálafyrirtækja, svo sem varðandi lán gegn veði í eigin hlutabréfum, lán til eigenda og stórar áhættuskuldbindingar. Framundan er vinna við að bæta úr ágöllum sem voru á skipulagi og tækjum er miða að því að varðveita fjármálastöðugleika. Í því sambandi hefur verið boðað að lög um Seðlabanka Íslands og lög um opinbert eftirlit með fjármálafyrirtækjum verði tekin til endurskoðunar. Í því efni þarf einnig að líta til alþjóðlegrar reynslu og þeirrar endurskoðunar sem nú á sér stað víða um heim að því er varðar þjóðhagsvarúð, fyrirkomulag fjármálaeftirlits og þátt seðlabanka í hvoru tveggja. Seðlabanki Íslands hefur á undanförnum mánuðum unnið að athugunum á þessu og mun á næstu vikum birta skýrslu um efnið.

Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands hafa á undanförnum mánuðum unnið sameiginlega að því að móta tillögur um samstarf stofnananna um mat á kerfisáhættu í fjármálakerfinu, gagnkvæm upplýsingaskipti og sameiginlega gagnagrunna. Mun afraksturinn birtast á næstunni í endurbættum samstarfssamningi þessara stofnana. Með þessu eru tvær helstu eftirlitsstofnanir fjármálakerfisins að taka höndum saman um að bæta úr þeim ágöllum sem voru á verkaskiptingu og upplýsingaskiptum fyrir hrun, eftir því sem mögulegt er innan núverandi lagaramma.

Einnig er áfram unnið að því að bæta virkni og öryggi greiðslumiðlunarkerfa. Þannig undirrituðu eigendur Reiknistofu bankanna og Fjölgreiðslumiðlunar hf. rammasamkomulag hinn 15. nóvember sl. sem miðar að því að skilja á milli innviða og samkeppnisrekstrar í greiðslumiðlun. Seðlabanki Íslands mun þá draga sig út úr Reiknistofu bankanna en taka að fullu yfir starfsemi Fjölgreiðslumiðlunar. Hann mun því í framtíðinni eiga og reka innviði kerfisins. Er það von mín að þessar breytingar muni hafa það í för með sér að kerfi greiðslumiðlunar hér á landi verði bæði öruggara og virkara.

En það er ekki nóg að móta innviði, regluverk og eftirlit. Við þurfum líka að reyna að átta okkur á því hvers konar fjármálakerfi við viljum og þurfum að hafa hér á landi. Þar skipta máli þættir eins og stærð kerfisins, samsetning og tengsl þess við hið alþjóðlega fjármálakerfi. Þetta mál verður ekki krufið til mergjar hér en það þarf nú að komast betur á dagskrá umræðunnar en verið hefur. Að mínu mati er bankakerfið enn of stórt miðað við innlendar þarfir og óhjákvæmilegt er að þar eigi sér stað endurskipulagning á komandi misserum, bæði fyrir tilstuðlan aðgerða opinberra aðila og aðila markaðarins. Frá því sjónarmiði að stuðla að öryggi kerfisins er síðan mikilvægt að fjármálafyrirtækin séu sem fjölbreyttust varðandi viðskipti, eignarhald og fjármögnun. Þegar öll fjármálafyrirtæki eru eins er eðli áhættunnar líka það sama hjá þeim öllum og tiltekin áföll því líklegri til að fella kerfið í heild heldur en ella. Þetta var eitt meginvandamálið varðandi bankakerfið hér á landi fyrir hrun. Að lokum þurfum við að móta stefnu um hvernig tengslum íslenska bankakerfisins við hið alþjóðlega fjármálakerfi verður háttað eftir að gjaldeyrishöftum verður aflétt. Að mínu mati mun þurfa að setja á einhverjar varúðarreglur sem takmarka alþjóðleg umsvif og gjaldeyristengda áhættu bankakerfisins eftir að gjaldeyrishöftum er aflétt, að minnsta kosti svo lengi sem Ísland er ekki aðili að Myntbandalagi Evrópu.

Það er í þessu samhengi sem ég sé hlutverk sparisjóða. Þeir auka við fjölbreytnina auk þess sem þeir hafa visst forskot í að meta staðbundin tækifæri og áhættu og njóta trausts og velvilja í heimabyggð. En þá er mikilvægt að sparisjóðirnir takmarki starfsemi sína við þá þætti þar sem þeir eru samkeppnisfærir og fari ekki út í áhættusama fjárfestingarbankastarfsemi.  Sparisjóðakerfið hefur vissulega orðið fyrir miklum áföllum og var hlutdeild þeirra í útlánum og eignarleigusamningum fjármálakerfisins ekki nema 4% í lok júní. En þeir eru með um þriðjung af afgreiðslustöðum á landinu og með þeirri fjárhagslegu endurskipulagningu sparisjóðanna sem átt hefur sér stað að undanförnu á að vera hægt að skjóta fótum undir mikilvæga sparisjóði. Margir haldast í rekstri og í heimabyggð og mun stofnfjáreigendum þeirra í framtíðinni gefast tækifæri til að kaupa aftur frá ríkinu eignarhlutdeild þess. Þótt niðurskrift stofnfjár nú sé sársaukafull aðgerð gengur hún þó skemmra en það sem hluthafar bankanna föllnu þurftu að þola. Ég skora því eins og áður á sparisjóðsfólk að grípa þetta tækifæri og hefja uppbyggingu til framtíðar.

 

Til baka