logo-for-printing

20. desember 2010

Peningastefnan eftir höft

Seðlabanki Íslands hefur birt skýrslu um peningastefnu hér á landi og afhent hana efnahags- og viðskiptaráðherra. Í skýrslunni er gerð grein fyrir helstu sjónarmiðum er varða framtíðarfyrirkomulag gengis- og peningamála.

Í skýrslunni kemur fram að efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lýkur á næsta ári og gjaldeyrishöft muni þurfa að hverfa í kjölfarið, þótt tímasetningar liggi ekki fyrir. Því sé tímabært að móta stefnu í gengis- og peningamálum sem leysi af hólmi þá stefnu sem efnahagsáætlunin feli í sér.

Í skýrslunni er meðal annars fjallað um hugsanlegar umbætur á framkvæmd peningastefnu á grundvelli verðbólgumarkmiðs, m.a. hvernig kerfisbundin inngrip á gjaldeyrismarkaði, svokölluð þjóðhagsvarúðartæki og endurbætur á samspili stefnunnar í peningamálum og stefnunnar í opinberum fjármálum gætu stuðlað að meiri stöðugleika. Skýrslunni er ætlað að veita yfirsýn yfir mögulegar úrbætur, en stefnuna þarf að útfæra nánar fyrir íslenskar aðstæður þegar ákvörðun um hana hefur verið tekin.
Skýrslan, Peningastefnan eftir höft, er aðgengileg á vef Seðlabanka Íslands, www.sedlabanki.is

Nánari upplýsingar veita Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur í síma 5699600.

Nr. 36/2010
20. desember 2010

Sérrit nr. 4: Peningastefnan eftir höft (útg. 20. desember 2010)

Til baka