logo-for-printing

13. janúar 2011

Hlutverk seðlabanka í fjármálaeftirliti

Seðlabanki Íslands hefur birt skýrslu um hlutverk seðlabanka í fjármálaeftirliti. Skýrslan er unnin í kjölfar viðbragða við fjármálakreppunni, bæði alþjóðlega og hér á landi, en Alþingi hefur lýst vilja sínum til að endurskoða löggjöf um eftirlit með fjármálastarfsemi og á sviði seðlabanka.

Í skýrslunni er fjallað um fjármálakerfi, hlutverk fjármálaeftirlits og seðlabanka, um mismunandi aðferðir og skipulag við fjármálaeftirlit í heiminum og þar með talið þær hugmyndir sem nú eru efst á baugi varðandi bætt fjármálaeftirlit.

Ein megin ályktunin sem dregin hefur verið af reynslu við fjármálaeftirlit undanfarin ár er að setja þurfi svokallaða þjóðhagsvarúð í forgang við hönnun nýrrar umgjarðar fyrir fjármálaeftirlit. Helstu stýritæki á sviði þjóðhagsvarúðar sem nú eru til skoðunar eru breytileg eiginfjárhlutföll, lausafjárkvaðir og breytileg hámörk veðsetningarhlutfalla.

Skýrslan er ætluð sem upplýsandi framlag af hálfu Seðlabanka Íslands í umræðuna sem nú fer fram um bætt regluverk og eftirlit með fjármálastarfsemi hér á landi, en hún felur ekki í sér beina tillögu um efnið.

Skýrslan, Sérrit Seðlabanka Íslands nr. 5; Hlutverk seðlabanka í fjármálaeftirliti, er aðgengileg á vef Seðlabanka Íslands, www.sedlabanki.is

Nánari upplýsingar veita Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Þorsteinn Þorgeirsson sérstakur ráðgjafi á skrifstofu bankastjóra í síma 5699600.

Sjá skýrsluna hér:
Sérrit nr. 5: Hlutverk seðlabanka í fjármálaeftirliti

 

Nr. 4/2011
13. janúar 2011

Til baka