logo-for-printing

28. janúar 2011

Greiðslumiðlun á vegum Seðlabanka Íslands

Eins og fram kom í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika*, hefur verið unnið að breytingum á fyrirkomulagi kjarna- og stoðkerfa íslenskrar greiðslumiðlunar. Niðurstaða þeirrar vinnu felur m.a. í sér tilflutning verkefna milli aðila. Seðlabanki Íslands seldi hlut sinn í Reiknistofu bankanna og varð samtímis eini eigandi Fjölgreiðslumiðlunar hf. sem fékk nafnið Greiðsluveitan. Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt nýja tilhögun.

Starfsemi Greiðsluveitunnar mun flytjast í húsnæði Seðlabankans síðar á þessu ári. Félagið tekst á hendur aukin verkefni frá því sem áður var. Fyrir breytinguna hafði Fjölgreiðslumiðlun með höndum rekstur jöfnunarkerfis og sameiginlegrar greiðslurásar fyrir greiðslukortaviðskipti (RÁS-kerfis). Greiðsluveitan mun auk framangreindra verkefna hafa með höndum rekstur stórgreiðslukerfis, SWIFT Alliance-kerfis, innheimtukerfis fyrir rafrænar kröfur og greiðsluseðla (kröfupotts) og kerfis sem sinnir birtingu rafrænna skjala í heimabönkum (birtingarkerfis).

Úthýsing og tæknileg þjónusta framangreindra kerfa verður áfram í höndum Reiknistofu bankanna en Greiðsluveitan annast gerð þátttökusamninga vegna þeirra. Þau fjármálafyrirtæki sem óska eftir þátttöku og uppfylla settar kröfur snúa sér til Greiðsluveitunnar til að fá aðgang að ofangreindum kerfum.
Á næstu vikum verður lokið við samningagerð milli Greiðsluveitunnar og Reiknistofunnar og samningar milli Greiðsluveitunnar og þátttakenda framangreindra kerfa verða uppfærðir. Greiðsluveitan mun innan tíðar birta opinberlega viðskiptaskilmála sína þar sem m.a. verða tilgreind skilyrði fyrir aðgangi að kerfum og þjónustu félagsins, verðskrá og önnur viðskiptakjör.

Tengiliðir kerfa, s.s. tengiliðir stórgreiðslukerfis í Seðlabanka Íslands, verða óbreyttir.

Nánari upplýsingar veita Logi Ragnarsson framkvæmdastjóri Greiðsluveitunnar í síma 458 0000 og Guðmundur Kr. Tómasson aðstoðarframkvæmdastjóri á fjármálasviði Seðlabanka Íslands í síma 569 9600.
_____________________________________________
*Fjármálastöðugleiki, seinna hefti, 25. nóvember 2010, kafli 3, bls. 21 og 22. (Fjármálastöðugleiki 2010/2)

Nr. 5/2011
28. janúar 2011

Til baka