logo-for-printing

31. janúar 2011

Kynning á vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands

Tímasetningu fyrir kynningar á ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands verður breytt lítils háttar frá og með næstu ákvörðun 2. febrúar næstkomandi. Yfirlýsing peningastefnunefndar, þar sem ákvörðun nefndarinnar er rökstudd, verður framvegis birt klukkan 9:00 á kynningardegi í stað þess að vera kynnt kl. 11:00, tveimur tímum eftir birtingu vaxtaákvörðunar, eins og verið hefur til þessa.

Jafnframt verður fundi með blaða- og fréttamönnum og sérfræðingum þar sem nánari grein er gerð fyrir ákvörðuninni flýtt um hálfa klukkustund og hefst hann klukkan 10:30. Fundurinn er aðgengilegur á vef Seðlabanka Íslands.

Þá vaxtaákvörðunardaga sem Peningamál koma út verða þau einnig birt kl. 9:00 í stað kl. 11:00 áður. Því verða Peningamál næst birt kl. 9:00 næstkomandi miðvikudag.

Tilgangur þessara breytinga er fyrst og fremst sá að gefa markaðsaðilum meira ráðrúm til að meta ákvörðun peningastefnunefndar áður en markaðir eru opnaðir. Þessi tilhögun gefur fjölmiðlum, sérfræðingum og öðrum einnig færi á að kynna sér yfirlýsingu nefndarinnar fyrir fundinn.

Fundargerð peningastefnunefndar verður eftir sem áður birt klukkan 16:00 tveim vikum eftir að vaxtaákvörðunin er kynnt.

Samþykkt um starfshætti peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands er aðgengileg á vef Seðlabanka Íslands (sjá hér: Starfshættir peningastefnunefndar).

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar í síma 5699600.

Nr. 6/2011
31. janúar 2011


Til baka