logo-for-printing

06. júlí 2011

Seðlabanki Íslands býðst til að kaupa íslenskar krónur

Seðlabanki Íslands kallar eftir tilboðum frá aðilum sem vilja selja íslenskar krónur gegn greiðslu í reiðufé í erlendum gjaldeyri. Útboðið er liður í losun hafta á fjármagnsviðskiptum, samanber áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011.

Viðskiptavökum á millibankamarkaði með gjaldeyri er boðið að hafa milligöngu um viðskiptin. Seðlabankinn býðst til að kaupa 15 ma.kr gegn greiðslu í evrum. Tilboðum skal skilað fyrir 12. júlí 2011. Nánari lýsingu á framkvæmd útboðsins er að finna í útboðsskilmálum.

Samhliða útboðinu mun Seðlabankinn, fyrir hönd ríkisjóðs, bjóðast til að kaupa til baka krónuskuldabréf ríkissjóðs sem falla á gjalddaga fyrir lok maí 2013 (sjá frétt frá Lánamálum ríkisins, samanber viðhengi).

Markmið þessarar aðgerðar, sem fellur undir fyrri áfanga áætlunarinnar um losun gjaldeyrishafta, er að stuðla að því að fjárfestar geti selt krónueignir sínar með skipulögðum hætti ef þeir svo kjósa. Lausafjárstaða bankanna er nægilega sterk til þess að standast tilfærslur á þeirri krónufjárhæð sem Seðlabankinn býðst til að kaupa og með ofangreindum endurkaupum á ríkisbréfum er dregið úr mögulegum hliðaráhrifum viðskiptanna á skuldabréfamarkað.
Eftir fyrstu viku ágústmánaðar mun Seðlabankinn bjóðast til að kaupa evrur gegn greiðslu í ríkisverðbréfum, samanber útboð sem haldið var 28. júní 2011.

Stefnt er að því að næsta útboð þar sem Seðlabankinn býðst til að kaupa íslenskar krónur verði haldið í september 2011.

Viðhengi:

Útboðsskilmálar (pdf)

Frétt frá Lánamálum ríkisins um endurkaup á skuldabréfum ríkissjóðs

Áætlun Seðlabanka Íslands um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011

Nánari upplýsingar veitir Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri og Sturla Pálsson framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands í síma 569-9600.

Nr. 19/2011
6. júlí 2011

 

Til baka