Svör Seðlabanka Íslands til umboðsmanns Alþingis
Umboðsmaður Alþingis óskaði einkum eftir svari við eftirfarandi spurningum:
• Seðlabanki Íslands lýsi viðhorfi sínu til þess hvort og þá að hvaða leyti 4. gr. reglna nr. 492/2001, eigi sér viðhlítandi lagastoð, sbr. lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
• Hvers vegna efni 2. mgr. 4. gr. reglna nr. 492/2001 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár og hliðstæð ákvæði eldri reglna, er orðað með þeim hætti sem þar kemur fram.
Reglur Seðlabanka Íslands nr. 492/2001 eru settar á grundvelli 2. mgr. 15. gr. laga nr. 38/2001 sem kveður á um að Seðlabankinn setji nánari reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Efnisleg niðurstaða er sú sama hvort sem greiðslur eru verðbættar eða höfuðstóllinn. Seðlabankinn getur því ekki séð að meginregla laga nr. 38/2001 um verðtryggingu lánsfjár hafi verið ranglega framkvæmd þó reglur Seðlabankans nr. 492/2001 kveði á um verðbættan höfuðstól en lögin um verðbættar greiðslur. Seðlabankinn getur því ekki séð að 4. gr. reglna nr. 492/2001 skorti lagastoð.
Seðlabankinn hefur í bréfi þessu ítarlega rakið hvernig reglur bankans um verðtryggingu hafa þróast í gegnum árin. Seðlabankinn hefur ætíð fylgt þeirri stefnu og meginreglu sem mörkuð var við upptöku almennrar verðtryggingar að höfuðstóll skuldar breytist með verðlagsþróun og að afborganir og vextir reiknist af verðbættum höfuðstól.
Sjá hér svar Seðlabanka Íslands til umboðsmanns Alþingis í heild sinni:
Svar Seðlabanka Íslands við bréfi umboðsmanns Alþingis (pdf)