logo-for-printing

18. nóvember 2011

Fjárfestingarleiðin - skref í losun gjaldeyrishafta

Á komandi mánuðum mun Seðlabanki Íslands standa fyrir gjaldeyrisútboðum þar sem bankinn mun kaupa erlendan gjaldeyri í skiptum fyrir krónur til innlendrar fjárfestingar, enda sé fjárfestingin bundin til langs tíma hér á landi. Viðskiptin eru liður í losun hafta á fjármagnshreyfingar með gjaldeyri, sbr. áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011. Markmið Seðlabanka Íslands með viðskiptunum er að auðvelda losun gjaldeyrishafta, án þess að það valdi verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum eða tefli fjármálastöðugleika í tvísýnu.

Fjárfestingarleiðin felur í sér að fjárfestar sem hyggjast fjárfesta á Íslandi fyrir erlendan gjaldeyri geta keypt íslenskar krónur fyrir hluta gjaldeyrisins í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands. Skilyrt er að viðkomandi fjárfestir kaupi að minnsta kosti sömu fjárhæð króna í venjulegum viðskiptum við fjármálastofnanir. Einnig er það skilyrði að öllum fjármunum verði varið til fjárfestingar innanlands, samkvæmt nánari ákvæðum í auglýsingum um fjárfestingarleiðina.

Einnig verður fjárfestum sem þegar eiga svonefndar aflandskrónur sem verið hafa í samfelldu eignarhaldi viðkomandi fjárfestis frá 28. nóvember 2008 gert kleift að fjárfesta með sama hætti og auglýsingin greinir. Þeir munu með sama hætti selja erlendan gjaldeyri hjá innlendri fjármálastofnun og er þá gert kleift að flytja til landsins aflandskrónur sínar. Fjárhæð aflandskróna sem heimilað yrði að flytja inn með þeim hætti samsvarar jafnvirði þess erlenda gjaldeyris sem fjárfestir seldi innlendri fjármálastofnun, reiknuðu á genginu sem myndast í útboðum Seðlabankans.
Fyrrgreind viðskipti munu fara fram fyrir tilstilli milligönguaðila sem uppfylla skilyrði laga um fjármálafyrirtæki varðandi starfsleyfi um fyrirtækjaráðgjöf og gjaldeyrisviðskipti og sem gert hafa samning við Seðlabanka Íslands.Milligönguaðilarnir munu aðstoða fjárfesta við gerð umsókna um þátttöku í útboði Seðlabankans í samræmi við auglýsingu og útboðsskilmála.

Fyrsta útboðið tengt fjárfestingarleiðinni verður auglýst nánar þegar undirbúningi er lokið. Vegna aðstæðna á erlendum fjármagnsmörkuðum hafa útboð Seðlabanka Íslands, þar sem óskað er tilboða í íslenskar krónur gegn greiðslu í reiðufé í erlendum gjaldeyri, legið niðri um nokkurra mánaða skeið. Þessum útboðum verður fram haldið þegar aðstæður leyfa að mati Seðlabankans.

Fylgiskjöl

Skilmálar um gjaldeyrisviðskipti

Fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands - Kynning 

Áætlun um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011

 

Nánari upplýsingar veita Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Þorgeir Eyjólfsson verkefnisstjóri losunar gjaldeyrishafta í síma 569 9600.

Nr. 28/2011
18. nóvember 2011

Til baka