Gjaldeyrishöftin samrýmast EES-samningnum
Með dómi uppkveðnum fyrr í dag hefur EFTA-dómstóllinn staðfest að gjaldeyrishöft, líkt og þau sem gilda hér á landi, samrýmast EES-samningnum. Í dóminum kemur fram að samkvæmt 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins geti hvort tveggja aðildarríki ESB og EFTA-ríki gripið til verndarráðstafana ef þau eigi í örðugleikum með greiðslujöfnuð eða alvarleg hætta er á að slíkir örðugleikar skapist, hvort sem það stafar af heildarójafnvægi í greiðslujöfnuði eða því hvaða gjaldmiðli það hefur yfir að ráða.
Við meðferð málsins benti íslenska ríkið og Seðlabanki Íslands á að nauðsynlegt hafi verið að taka upp gjaldeyrishöft hér á landi í kjölfar bankahrunsins haustið 2008.
Í þessu sambandi var bent á að Ísland hafi óskað eftir láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Lánið hafi verið veitt í því skyni að ná mætti jafnvægi i greiðslujöfnuði landsins. Gjaldeyrishöftin sem var komið á í árslok 2008 hafi ekki reynst nægjanleg til að auka gjaldeyrisforðann og því hafi verið nauðsynlegt að takmarka innstreymi á svonefndum aflandskrónum til landsins. Fyrr á þessu ári, óskaði Héraðsdómur Reykjavíkur eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins hvort takmarkanir af þessum toga samræmdust EES-samningnum.
Í dómi EFTA-dómstólsins segir m.a.:
Hin efnislegu skilyrði sem kveðið er á um í 2. og 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins útheimta flókið mat á ýmsum þjóðhagfræðilegum þáttum. EFTA-ríki njóta því aukins svigrúms til að meta hvort skilyrðin teljist uppfyllt og ákveða til hvaða úrræða skuli gripið, þar sem slík ákvörðun snýst í mörgum tilvikum um grundvallaratriði við mörkun efnahagsstefnu.
Verndarráðstafanirnar sem deilt er um í þessu máli, þ.e. reglurnar sem takmarka innflutning á aflandskrónum, voru settar til að hindra fjármagnsflutninga sem gætu valdið alvarlegum og verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Atvik málsins, sem vísað hefur verið til fyrir dómstólnum, gefa til kynna að alvarlegar aðstæður hafi skapast á Íslandi eftir hrun fjármálakerfisins síðla árs 2008. Þessar aðstæður lýstu sér meðal annars í verulegri gengislækkun íslensku krónunnar og minnkandi gjaldeyrisforða. Við þessar aðstæður voru uppfyllt efnislegu skilyrðin fyrir því að grípa til verndarráðstafana samkvæmt 2. og 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins, jafnt á þeim tímapunkti þegar reglurnar voru settar (í október 2009) sem og þegar stefnanda var endanlega meinuð undanþága frá gildandi banni við innflutningi aflandskróna (í október 2010). Stefnandi virðist hvorki andmæla því að málsatvik hafi verið með þeim hætti sem þeim hefur verið lýst fyrir dómstólnum, né því að skilyrðin fyrir því að grípa til verndarráðstafana hafi verið uppfyllt á þeim tíma sem það var gert.
Engin gögn hafa verið lögð fyrir dómstólinn sem benda til þess að úrræðin sem gripið var til hafi brotið í bága við meðalhófsregluna. Þvert á móti, virðist stöðugleiki íslensku krónunnar og gjaldeyrisforðans ekki hafa náðst fyrr en sett voru gjaldeyrishöft sem bönnuðu innflutning aflandskróna. Það bendir til þess að með ráðstöfununum hafi ekki verið gengið lengra en nauðsynlegt var til að ná markmiðinu sem að var stefnt. Enn fremur felur bann við innflutningi aflandskróna ekki í sér hindrun fyrir einstaklinga, líkt og stefnanda í máli þessu, sem vilja greiða niður skuldir sínar á Íslandi, eins og framkvæmdastjórn ESB hefur bent á. Bannið felur einungis í sér að ekki er jafn auðvelt að færa sér hagstæðari gengismun í nyt með því að kaupa íslenskar krónur á aflandsmarkaði. Loks er stefnanda ekkert hald í þeirri röksemd að upphæð fjárins sé lág og að þar af leiðandi standi engin efni til að synja beiðni hans um undanþágu. Ef allir eigendur aflandskróna ættu sams konar viðskipti myndu þau samanlagt hafa veruleg áhrif.
Í samræmi við það sem að framan er rakið er svarið við spurningu Héraðsdóms Reykjavíkur að ráðstafanir í landsrétti sem hindra innflutning aflandskróna til Íslands samrýmast 2. og 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins við aðstæður eins og þær sem eru til umfjöllunar í málinu sem rekið er fyrir héraðsdómi.
Þá segir ennfremur í dómi EFTA-dómstólsins um það undanþágukerfi sem gjaldeyrisreglurnar gerðu ráð fyrir og er nú að finna í lögum um gjaldeyrismál nr. 87/1992, sbr. síðari breytingar:
Reglurnar sem ágreiningur þessa máls lýtur að og undanþágukerfið sem í þeim er að finna brjóta heldur ekki í bága við meginregluna um réttarvissu. Allur innflutningur aflandskróna er bannaður, nema að sérstök undanþága sé veitt. Í reglunum er kveðið á um að við mat á því hvort undanþága skuli veitt beri að horfa til þess hvaða afleiðingar takmarkanir á fjármagnshreyfingum hafi fyrir umsækjanda, hvaða markmið búi að baki takmörkununum og hvaða áhrif undanþága muni hafa á stöðugleika í gengis- og peningamálum. Af því leiðir að umsækjendum er gefið til kynna með nægilega skýrum hætti til hvaða þátta sé litið við mat á umsóknum um undanþágu.
Nr. 31/2011
14. desember 2011