logo-for-printing

23. janúar 2012

Ákvörðun stjórnar ESÍ ehf. vegna lána til stofnfjárhafa í Sparisjóði Svarfdæla

Stjórn Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ) hefur ákveðið að fella niður kröfur á stofnfjárhafa í Sparisjóði Svarfdæla sem ESÍ á í gegnum Hildu hf. Umræddar kröfur eru lán til rúmlega 100 aðila sem veitt voru af Saga Fjárfestingarbanka í árslok 2007 í tengslum við stofnfjáraukningu í Sparisjóði Svarfdæla. Þau voru síðar seld yfir í systurfélag bankans, Hildu hf. ESÍ yfirtók Hildu á miðju síðasta ári og hefur frá þeim tíma farið með forræði á ofangreindum lánum.

Nú hafa verið höfðuð 96 dómsmál á hendur Hildu þar sem gerðar eru þær kröfur að lánin verði dæmd ólögmæt með vísan til niðurstöðu Hæstaréttar frá því 24. nóvember 2011 í svokölluðum Byr-málum og þess fordæmis sem niðurfelling Landsbankans á stofnfjáreigendalánum hjá Sparisjóði Keflavíkur skapaði.

Stjórn ESÍ telur vafa ríkja hvort lögmæti krafna vegna lána til kaupa á stofnfé í Sparisjóði Svarfdæla sé að fullu sambærilegt og þær kröfur sem dæmt var um í svokölluðum Byr-málum og þær kröfur sem Landsbankinn felldi niður. Með ákvörðun sinni nú er stjórnin ekki að taka beina afstöðu til þess álitamáls en hins vegar verður ekki framhjá því litið að kröfur þessar og tilefni þeirra er að ýmsu leyti sambærileg. Eftir þá ákvörðun Landsbanka Íslands að fella niður lán sem veitt voru í tengslum við stofnfjáraukningu í mörgum sparisjóðum um líkt leyti og umrædd lán mæla sanngirnisrök með því að lánin vegna kaupa á stofnfjárhlutum í Sparisjóði Svarfdæla verði felld niður. Fjárhagslegir hagsmunir Seðlabankans og ríkissjóðs til samans í þessu máli eru tiltölulega litlir og langvarandi deilur fyrir dómsstólum um þetta efni geta tafið verulega fyrir því að ríkissjóður fái til sín eign sína í Sparisjóði Svarfdæla og sett í uppnám endurskipulagningu fjármálaþjónustu á svæðinu.

Það er því mat stjórnar ESÍ að almannahagsmunum sé best borgið með því að fella ofangreindar kröfur niður.

Niðurfelling ofangreindra krafna er háð þeim skilyrðum að stofnfé sem lagt var að veði fyrir lánunum verði afhent Hildu/ESÍ og að fyrirhuguð kaup Landsbanka Íslands á rekstri Sparisjóðs Svarfdæla verði samþykkt af nægjanlegum fjölda stofnfjárhafa.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569-9600. 

Nr. 3/2012 
23. janúar 2012

Til baka