Yfirlýsing peningastefnunefndar 8. febrúar 2012
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum.
Samkvæmt uppfærðri spá Seðlabankans, sem birtist í Peningamálum í dag, heldur efnahagsbatinn áfram, þrátt fyrir að það dragi úr hagvexti í heiminum og óvissa sé mikil. Horfur um efnahagsumsvif eru í megindráttum svipaðar og í nóvemberspá Seðlabankans. Verðbólguhorfur til skamms tíma eru einnig í takt við það sem gert hafði verið ráð fyrir, þótt nú sé spáð heldur hægari hjöðnun verðbólgu á árinu. Haldist gengi krónunnar svipað og það er nú, er því spáð að verðbólga verði fyrir ofan verðbólgumarkmið bankans heldur lengur en spáð var í nóvember.
Eftir því sem efnahagsbatanum vindur fram og dregur úr slaka í þjóðarbúskapnum verður nauðsynlegt að draga úr slaka peningastefnunnar. Að hve miklu leyti þessi aðlögun á sér stað með hærri nafnvöxtum Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar. Batni verðbólguhorfur ekki er líklegt að hækka þurfi nafnvexti á næstunni til þess að taumhald peningastefnunnar, sem er enn tiltölulega laust, verði hæfilegt.
Nr. 4/2012
8. febrúar 2012
Vextirnir verða sem hér segir:
Daglánavextir | 5,75% |
Vextir af lánum gegn veði til sjö daga | 4,75% |
Hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum | 4,5% |
Innlánsvextir | 3,75% |
Frétt nr. 4/2012: Yfirlýsing peningastefnunefndar 8. febrúar 2012 (pdf-skjal)