logo-for-printing

18. apríl 2012

Úthlutun styrkja úr menningarsjóði í nafni Jóhannesar Nordals

Í dag fór fram fyrsta úthlutun styrks úr menningarsjóði í nafni Jóhannesar Nordals. Seðlabanki Íslands stofnaði til menningarstyrksins í nafni Jóhannesar í tilefni af 50 ára afmæli Seðlabankans á síðasta ári og þess að Þjóðhátíðarsjóður hefur lokið störfum eftir 35 ára starf.

Alls bárust 39 styrkumsóknir og ákvað úthlutunarnefnd að veita tveimur umsækjendum styrk, samtals að fjárhæð 1,5 m.kr. Að þessu sinni hljóta styrk þau Sigríður Dóra Sverrisdóttir, sem fær 900.000 krónur til verkefnisins „Rímur og rokk“, og Páll Valsson, sem hlýtur 600.000 krónur til ritunar bókar um ævi Bjarna Thorarensens.

Í verkefni sínu vinnur Sigríður Dóra Sverrisdóttir með rímur af norð-austurhorni landsins og gerir þær aðgengilegar. Auk þess mun hún halda námskeið í bragfræði fyrir ungmenni þar sem búnar verða til rímur um réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Verkefnið miðar að því að viðhalda menningararfi okkar Íslendinga, en ennfremur að því að afhenda menningarverðmætin yngri kynslóðum og kenna þeim að nýta þau í eigin listsköpun.

Páll Valsson vinnur að ritun bókar um ævi og verk Bjarna Thorarensens amtmanns og skálds, sem er einnig dýrmætt framlag til varðveislu menningararfsins. Með útgáfu ævisögu Bjarna er sú saga sem tengist samtíð hans, ævi og starfsferli, sem og sú menningararfleifð sem fylgir framlagi hans til íslenskrar ljóðlistar gerð aðgengileg Íslendingum um ókomna tíð.

Formaður úthlutunarnefndar er Hildur Traustadóttir, fulltrúi í bankaráði Seðlabanka Íslands, en aðrir í nefndinni eru Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti, og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Nánari upplýsingar veitir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í síma 569 9600. 

Til baka