logo-for-printing

23. maí 2012

Væntingakönnun markaðsaðila

Seðlabanki Íslands hóf í upphafi árs að gera ársfjórðungslegar kannanir á væntingum markaðsaðila til ýmissa hagstærða, s.s. verðbólgu og vaxta. Könnunin sækir fyrirmyndir sínar í kannanir sem eru framkvæmdar af seðlabönkum víða erlendis. Dagana 7.-11. maí sl. gerði Seðlabankinn könnunina í annað skiptið. Leitað var til 35 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 22 aðilum og var svarhlutfallið því 63%.

Niðurstöður maíkönnunarinnar sýna að markaðsaðilar gerðu ráð fyrir því að ársverðbólga verði um 6% það sem eftir lifir ársins en hafi hjaðnað í 5,5% eftir tólf mánuði og muni enn mælast 5,4% eftir tvö ár, sé miðað við miðgildi svara. Samkvæmt þessum niðurstöðum væntu markaðsaðilar meiri verðbólgu í maí en þeir gerðu í febrúarkönnun bankans. Sé litið til lengri tíma gera markaðsaðilar ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 5% næstu tíu ár sem er um ½ prósentu meiri verðbólga en búist var við í síðustu könnun.

Markaðsaðilar væntu þess að stýrivextir Seðlabanka Íslands myndu hækka um 1 prósentu til viðbótar á þessu ári. Samkvæmt þessu yrðu veðlánavextir Seðlabanka Íslands um 5,5% í lok júní á þessu ári og 6% í lok ársins. Þess má geta að stýrivextir Seðlabankans hafa hækkað um ½ prósentu frá framkvæmd könnunarinnar og eru veðlánavextir nú 5,5%.

Flestir markaðsaðilar álitu taumhald peningastefnunnar vera of laust, þegar könnunin var framkvæmd, miðað við markmið Seðlabankans um að halda verðbólgu að jafnaði sem næst 2½%. Jafnframt töldu flestir að taumhald peningastefnunnar muni verða hæfilegt um mitt næsta ár.

 

Nr. 20/2012
23. maí 2012

Til baka